Körfubolti

Pétur Rúnar: Vorum fullgóðir með okkur

Helgi Hrafn Ólafsson skrifar
Pétur í leik með Stólunum.
Pétur í leik með Stólunum. vísir/daníel
Pétur Rúnar Birgisson var sáttur eftir að Tindastóll sigraði Fjölni í Dalhúsum í kvöld.Leikurinn fór 88-100 en var miklu jafnari en sú staða gefur til kynna. Fjölnismenn komu brjálaðir út úr hálfleiknum og voru ekki langt frá því á tímabili að komast yfir gestina sem leiddu með 22 stigum eftir 20 mínútur.„Ég held að við vorum fullgóðir með okkur í seinni hálfleiknum. Förum aðeins of mikið á hælana og höldum að þetta sé búið,“ sagði Pétur um áhlaup Fjölnis eftir hálfleikshléið. Heimamenn fór í svæðisvörn og skoruðu 29 stig gegn 11 stigum hjá Tindastóli í þriðja leikhluta.„Við erum að fá góð skot, setjum þau bara ekki niður. Þá fá þeir löng fráköst og fara í hraðaupphlaup og ná að laga stöðuna,“ sagði leikstjórnandinn knái frá Sauðárkróki.Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem að Tindastólsmenn koma linir út úr búningsklefanum í hálfleik og þá enduðu þeir á því að tapa gegn Val.Pétur Rúnar þóttist fullviss um að engir af liðsfélögum hans voru að hugsa út í þann leik og allir hafi haldið einbeitingu þrátt fyrir slakan leikhluta. Þjálfarinn þeirra, Baldur Þór, skipti þar miklu máli.„Baldur Þór er alltaf með sama hugarfar. Ein leikflétta í einu.“Pétur gengst við því að hans menn megi þó ekki við svona leikhlutum. „Þetta er í annað skiptið sem við gerum þetta í hálfleik, að koma inn á með hangandi haus. En, körfubolti er leikur áhlaupa! Það var okkar að vera sterkir í lokin.“Tindastólsmenn voru það vissulega í kvöld, enda kláruðu þeir leikinn með því að vinna fjórða leikhlutann með átta stigum. Þá hafa þeir unnið KR og Fjölni í tveimur ferðum til Reykjavíkur. Þeir héldu því heim norður um heiðar eftir aðra vel heppnaða ránsferð í höfuðborgina.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.