Umfjöllun og viðtöl: Fram - FH 26-36 | Fimleikafélagið aftur sigurbraut

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásbjörn skoraði tíu mörk fyrir FH.
Ásbjörn skoraði tíu mörk fyrir FH. VÍSIR/BÁRA
FH vann öruggan tíu marka sigur á Fram, 26-36, í 11. umferð Olís-deildar karla í dag.

Ásbjörn Friðriksson skoraði tíu mörk fyrir FH-inga sem voru miklu sterkari aðilinn í leiknum. Phil Döhler var frábær í marki gestanna og varði 22 skot (51%).

Matthías Daðason og Valdimar Sigurðsson skoruðu sex mörk fyrir Fram sem er án sigurs í síðustu fimm leikjum sínum í deild og bikar.

Sóknarleikur FH var frábær í fyrri hálfleik. Liðið skoraði 20 mörk og var með 74% skotnýtingu.

Vörn Framara var ömurleg og FH-ingar þurfti ekki meira en 1-2 sendingar eða eina gabbhreyfingu til að komast í dauðafæri.

Valdimar minnkaði muninn í tvö mörk, 8-10, en FH svaraði með 6-2 kafla og náði heljartaki á leiknum.

Framarar voru ótrúlega óskynsamir í sókninni og virtust alltaf taka verstu mögulegu ákvörðunina sem í boði var. Döhler reyndist heimamönnum líka erfiður og varði tólf skot (55%) í fyrri hálfleik. Staðan að honum loknum var 13-20, FH í vil.

Undir lok fyrri hálfleiks fékk Framarinn Stefán Darri Þórsson rautt spjald fyrir að brjóta á Jakobi Martin Ásgeirssyni í hraðaupphlaupi.

Seinni hálfleikurinn var aldrei spennandi. FH gaf ekkert eftir og Fram náði aldrei að minnka muninn í minna en sex mörk.

Á endanum munaði tíu mörkum á liðunum, 26-36. Þetta var aðeins annar útisigur FH á tímabilinu. Fram hefur hins vegar tapað fjórum af fimm heimaleikjum sínum í deildinni.

Af hverju vann FH?

FH-ingar hafa verið misjafnir í vetur en þegar þeir eru góðir eru þeir virkilega góðir, eins og í dag. Sóknarleikurinn var frábær og vörnin styrktist eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn. Döhler átti svo stjörnuleik í markinu.

Vörnin hefur oftast verið í lagi hjá Fram í vetur. En þegar svo er ekki á liðið mjög erfitt uppdráttar því sóknarleikurinn er ekki burðugur.

Hverjir stóðu upp úr?

Döhler hefur ekki staðið undir væntingum í vetur en var magnaður í FH-markinu í dag. Þetta er ekki fyrsti góði leikurinn hans á tímabilinu en venjulega hefur fylgt slakur leikur í kjölfarið. Nú reynir á fyrir Þjóðverjann að sýna stöðugleika.

Ásbjörn var öflugur og Einar Rafn Eiðsson er allur að koma til. Hann skoraði fimm mörk og átti nokkrar góðar línusendingar. Þess má geta að allir útileikmenn FH skoruðu í leiknum.

Valdimar var besti leikmaður Fram í leiknum og Svanur Páll Vilhjálmsson átti góða innkomu í hægra hornið.

Hvað gekk illa?

Svo gott sem allt gekk illa hjá Fram. Fyrir leikinn höfðu Framarar aðeins fengið á sig 25,3 mörk að meðaltali í leik. Vörn Fram var óvenju slök í dag og liðið hefur ekki fengið á sig fleiri mörk í leik í vetur.

Sóknarleikurinn var mjög stirður. Þorgrímur Smári Ólafsson skaut og skaut en fæst skotanna fóru í netið. Andri Heimir Friðriksson náði sér heldur ekki á strik.

Hvað gerist næst?

Á laugardaginn fær Fram Val í heimsókn í fyrsta leik sínum í seinni umferðinni. Mánudaginn 2. desember fara FH-ingar austur fyrir fjall og mæta Íslandsmeisturum Selfyssinga.

Guðmundur sagði að sínir menn hefðu verið andlausir gegn FH.vísir/bára
Guðmundur Helgi: Stemmningsleysi í okkar liði

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, var niðurlútur eftir tapið fyrir FH í dag.

„Döhler lokaði á okkur. Ég veit ekki hvað hann varði mörg skot. En fyrst og fremst var stemmningsleysi í okkar liði. Þetta var ekki gott,“ sagði Guðmundur eftir leik.

Ekki stóð steinn yfir steini í vörn Fram í fyrri hálfleik þar sem liðið fékk á sig 20 mörk.

„Vörnin hefur verið fín í vetur en þetta var skelfilegt frá A til Ö. Þegar þú spilar ekki vel gegn FH rúlla þeir yfir þig. Þeir voru miklu betri en við,“ sagði Guðmundur.

Sóknarleikur Fram var ekki mikið skárri en varnarleikurinn. Framarar tóku oft og iðulega slæmar ákvarðanir og skot úr erfiðum færum.

„Við höfum margoft farið yfir það og förum yfir það á næstu æfingu. Við vorum ekki rétt stilltir í dag,“ sagði Guðmundur.

Stefán Darri Þórsson fékk rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks. Guðmundi fannst það harður dómur.

„Ég er ekki búinn að sjá þetta aftur en mér fannst hann sækja í manninn. Þar af leiðandi átti þetta ekki að vera rautt spjald,“ sagði Guðmundur.

Næsti leikur Fram er gegn Val á heimavelli. Guðmundur vill sjá betra hugarfar hjá sínum mönnum í þeim leik.

„Við þurfum að ná baráttuandanum aftur upp. Þegar hann dettur út er Fram ekki mikið. Við þurfum bara að berja okkur saman,“ sagði Guðmundur að lokum.

Sigursteinn var kampakátur í leikslok.vísir/bára
Sigursteinn: Döhler er frábær markvörður

„Ég er mjög ánægður með heildarframmistöðuna. Vörnin var smá tíma í gang en svo hrökk hún í gang hún. Hraðaupphlaupin voru í góð í bland við mjög agaðan og góðan sóknarleik,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, eftir sigurinn á Fram.

Sóknarleikur FH-inga var til mikillar fyrirmyndar í leiknum. Liðið skoraði 36 mörk og var með 67% skotnýtingu.

„Við létum boltann ganga vel og vorum agaðir. Við leyfðum okkur ekki hluti sem við eigum ekki að leyfa okkur,“ sagði Sigursteinn.

Phil Döhler átti frábæran leik í marki FH og varði rúmlega helming þeirra skota sem hann fékk á sig.

„Phil er frábær markvörður. Auðvitað hafa komið leikir þar sem hann hefur ekki spilað vel en þá hefur annað líka klikkað. Við höfum fulla trú á honum,“ sagði Sigursteinn.

Allir tólf útileikmenn FH skoruðu í leiknum og liðsheildin var öflug.

„Við töluðum mikið um að við vildum sjá alvöru liðsframmistöðu. Við vinnum með það í hverri einustu viku og vonandi heldur það áfram,“ sagði Sigursteinn.

Hann vonast til að FH fái vind í seglin með þessum sigri.

„Við reynum að ná stöðugleika í okkar leik og það mun takast,“ sagði Sigursteinn að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira