Viðskipti innlent

27 missa vinnuna hjá Jarðborunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurður Sigurðsson, forstjóri Jarðborana, segir verkefnaleit í fullum gangi.
Sigurður Sigurðsson, forstjóri Jarðborana, segir verkefnaleit í fullum gangi. Aðsend
27 starfsmönnum Jarðborana var sagt upp störfum á þriðjudag. RÚV greindi fyrst frá. Sigurður Sigurðsson forstjóri segir verkefnaskort um að kenna en fyrirtækið sjái fram á algjört hlé í verkefnum í fimm til sjö mánuði.

„Við erum með mjög öflugt lið til að afla verkefna,“ segir Sigurður og bendir á að sextíu prósent verkefna Jarðborana hafi verið utan landsteinanna.

„Við erum að vinna á St. Vincenet í karabíska hafinu en það verkefni klárast í janúar. Sömuleiðis erum við að vinna fyrir Orkuveituna uppi á Hellisheiði en þeim samningi er að ljúka,“ segir Sigurður.

Mögulega verði fleiri verkefni sem komi upp úr samstarfinu á næsta ári en ekkert sé í hendi.

Á fundi með starfsmönnum á þriðjudag segist Sigurður hafa farið mjög vel yfir verkefnastöðuna. Staðan sé auðvitað hundleiðinleg en fólk skilji ástæðurnar.

Um hundrað manns störfuðu hjá Jarðborunum fyrir uppsagnirnar. Bæði íslenskir og erlendir starfsmenn missa vinnuna. Mikil þekking tapist við brotthvarf þeirra að sögn Sigurðar en misjafnt er hvenær fólk ljúki störfum. Það dreifist yfir næstu fimm mánuði.

Til greina komi að endurráða fólk ef verkefnastaðan batnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×