Handbolti

Snorri Steinn: Breytum byrjuninni ekki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir hans Snorra eru komnir á sigurbraut.
Strákarnir hans Snorra eru komnir á sigurbraut. vísir/daníel
„Eins og oft áður var vörnin þétt og markverðirnir voru báðir mjög góðir í leiknum. Við byrjuðum vel en ég var óánægður með kafla í fyrri hálfleik þar sem við hleyptum þeim inn í leikinn. Þeir gerðu það vel og við vorum í smá vandræðum í sókninni,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, í samtali við Vísi eftir sigurinn á KA, 31-23, í kvöld.

„Svo var meiri kraftur og áræðni í sóknarleiknum í seinni hálfleik. Þeir spila ákveðna 3-2-1 vörn sem getur slegið lið út af laginu.“

KA-menn héldu lengi vel í pilsfaldi Valsmanna. Munurinn var tvö mörk í hálfleik, 13-11, en í seinni hálfleik var Valur alltaf með frumkvæðið og vann að lokum átta marka sigur.

„KA er með flott lið og þeir berjast hrikalega vel. Þeir eru fastir fyrir en við mættum þeim í baráttunni. Þeir skoruðu lítið, voru í brasi í sókninni og reyndu alls konar hluti en mér fannst við leysa það vel,“ sagði Snorri.

Eftir erfiða byrjun á tímabilinu hefur Valur nú unnið fjóra leiki í röð.

„Þegar við vorum í krísunni sagði ég að eina meðalið væri að vinna leiki,“ sagði Snorri.

„Það gerir öllum liðum gott. Við þurftum nauðsynlega á því að halda og erum búnir að vinna fjóra leiki í röð. En við förum ekki fram úr okkur. Byrjunin er alveg eins og hún var. Við breytum henni ekkert.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×