Körfubolti

„Þarft kannski frekar áfallahjálp eftir eins stigs tap“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þór hefur tapað öllum sjö leikjum sínum í Domino's deild karla í vetur.
Þór hefur tapað öllum sjö leikjum sínum í Domino's deild karla í vetur. mynd/facebook-síða þórs

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Ak., bar sig vel þrátt fyrir 61 stigs tap hans manna fyrir Njarðvík, 113-52, í kvöld.

„Fljótlega þegar fór að líða á seinni hálfleikinn sá maður hvernig þetta myndi enda. Maður var búinn að jafna sig á að tapa. Þetta er öðruvísi en að tapa með einu stigi, þá þarftu kannski á áfallahjálp að halda,“ sagði Lárus við Vísi eftir leik.

Þórsarar hafa tapað öllum leikjum sínum í vetur en aldrei eins illa og í kvöld.

„Við hittum á Njarðvík í ágætis stuði. Eftir 1. leikhluta var þetta jafnt en þeir náðu áhlaupi í 2. leikhluta. Eftir það náðum við engu áhlaupi sem er mjög óvenjulegt. Yfirleitt nær maður einhvers konar áhlaupi,“ sagði Lárus.

En fannst honum Þórsarar gefast upp í leiknum?

„Mér fannst við missa móðinn. Ég veit ekki hvort ég eigi að kalla þetta uppgjöf. Ungu strákarnir sem komu inn á lögðu sig alla fram en þá voru þeir að spila á móti betri körfuboltamönnum. Lykilmenn okkar voru ekki nógu góðir í dag,“ sagði Lárus.

Hans bíður það erfiða verkefni að reisa Þórsara við eftir þetta stórtap í kvöld.

„Ég kom einu sinni hingað með Hamri og tapaði með 50 stigum. Við fengum nýjan Bandaríkjamann og unnum átta í röð eftir það,“ sagði Lárus að lokum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.