Viðskipti innlent

Samkeppni skilin frá öðrum þáttum

Keflavíkurflugvöllur mun verða móðurfélag Isavia.
Keflavíkurflugvöllur mun verða móðurfélag Isavia. Fréttablaðið/ernir
Stjórn Isavia hefur samþykkt verulega breytt skipulag. Stofnuð verða sérstök dótturfélög utan um ólíka starfsemi Isavia, og verður þá samkeppnisrekstur aðskilinn frá öðrum þáttum fyrirtækisins. Breytingarnar munu taka gildi um áramót. Þetta var kynnt innan fyrirtækisins í gær.

Isavia, sem er opinbert hlutafélag, rekur net flugvalla á Íslandi og flugleiðsöguþjónustu á einu stærsta flugstjórnarsvæði heims. Starfsmenn telja nú um 1.300 manns.

Flugvallasvið og flugleiðsögusvið verða gerð að sérstökum dótturfélögum. Af núverandi dótturfélögum Isavia mun Fríhöfnin haldast óbreytt, fyrirtækið Domavia verður félag um innanlandsflugvelli landsins. Fyrirtækin Tern, sem þróar og framleiðir hugbúnað fyrir flugleiðsöguþjónustu, og grænlenska flugleiðsöguþjónustufyrirtækið Suluk verða færð undir flugleiðsögu.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir að með þessu sé verið að tengja betur saman þarfir viðskiptavina og framtíðarþróun Keflavíkurflugvallar. Verið sé að aðskilja ólíkar rekstrareiningar félagsins. „Í fyrsta lagi starfsemi sem rekin er á ríkisframlögum, í öðru lagi þá þætti sem byggja á endurheimt útlagðs kostnaðar og að lokum þá starfsemi sem er í harðri alþjóðlegri samkeppni,“ segir Sveinbjörn.

„Hver hluti þessarar ólíku starfsemi mun fá sitt eigið vægi, stjórn og tækifæri til innleiðingar mismunandi áherslna.“

Keflavíkurflugvöllur mun verða móðurfélag Isavia. „Þar liggja stærstu viðskiptatækifærin og mesta rekstraráhættan. Það er mikilvægt að þræðir stjórnar Isavia liggi beint inn til Keflavíkurflugvallar.“ Sveinbjörn segir að ekki sé þörf á jafn umfangsmikilli umsýslu stoðþjónustu hjá flugvallarsviðinu og á flugleiðsögusviðinu. Stoðsvið félagsins verða eftir hjá móðurfélaginu. Þá verður stofnað nýtt stoðsvið stafrænnar þróunar og upplýsingatækni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×