Golf

Tiger Woods á undan áætlun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er létt yfir Tiger Woods þessa dagana.
Það er létt yfir Tiger Woods þessa dagana. Getty/Richard Heathcote

Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods er ánægður með hvernig endurhæfingin hans gengur eftir skurðaðgerðina sem hann gekkst undir í ágúst.

Tiger Woods segist vera á undan áætlun en hann fór í aðgerð á hné.

Tiger er í tíunda sæti á heimslistanum en með sigri sínum á Mastersmótinu í apríl síðastliðnum þá endaði hann ellefu ára bið eftir risatitli.

Tiger Woods er nú staddur í Japan þar sem hann mun spila á ZOZO meistaramótinu um næstu helgi.
„Ég er líklega viku á undan áætlun. Það er gott að geta aftur beygt mig niður til að lesa púttin,“ sagði Tiger.

„Tímabilið mitt endaði aðeins fyrr en áætlað var. Ég fór snemma í aðgerðina og komst með því fyrr af stað á ný,“ sagði Tiger.

Tiger Woods ætlar líka að keppa á Hero World Challenge mótinu í desember og svo verður hann fyrirliði bandaríska landsliðsins í Forsetabikarnum sem fer fram um miðjan jólamánuðinn.

„Ég er orðinn vongóður um að spila þetta mót, spila á Hero á mótinu og spila á Forsetabikarnum í Ástralíu. Það leit ekki út fyrir það um mitt árið,“ sagði Tiger.  

Forsetabikarinn fer fram í Ástralíu og hefst í Melbourne 13. desember. Þar mætir bandaríska landsliðið Alþjóðaliðinu sem er undir stjórn Ernie Els.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.