Golf

McIlroy pirraður á ummælum Koepka um biðina löngu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
McIlroy og Koepka. Ummæli þess síðarnefnda fóru í taugarnar á Norður-Íranum.
McIlroy og Koepka. Ummæli þess síðarnefnda fóru í taugarnar á Norður-Íranum. vísir/getty

Norðurírski kylfingurinn Rory McIlroy segir að það hafi verið óþarfi hjá Brooks Koepka, efsta manni heimslistans, að minna sig á hversu lengi hann hafi þurft að bíða eftir sigri á risamóti.

Í síðustu viku sagði Koepka að hann teldi McIlroy ekki lengur vera sinn höfuðandstæðing þar sem hann hefði ekki unnið risamót í fimm ár.

„Þetta var ekki rangt hjá Brooks,“ sagði McIlroy í viðtali við GOLF TV. Hann viðurkenndi þó að ummæli þess bandaríska hefðu pirrað sig.

„Hann hefur verið besti kylfingur heims undanfarin ár. En það var óþarfi að núa mér því um nasir að ég hafi ekki unnið risamót í dágóðan tíma.“

McIlroy hefur unnið fjögur risamót á ferlinum. Hann vann PGA-meistaramótið 2012 og 2014, Opna bandaríska 2011 og Opna breska 2014.

Þrátt fyrir að vera fúll yfir ummælum Koepka ítrekaði McIlroy að þeim væri vel til vina.

„Ég elska Brooks. Hann er frábær náungi og mikill keppnismaður eins og við allir,“ sagði McIlroy.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.