Skoðun

Allir nema þú

Birna Þórarinsdóttir skrifar
Margir leggja lykkju á leið sína til að agnúast út í Borgarlínu. Andstaðan snýst oftar en ekki um vantrú þess sem talar á vilja borgarbúa til að nota almenningssamgöngur. „Við erum bílaþjóð“ segir fólk og á við sjálft sig.

Margir geta ekki ímyndað sér lífið án bílsins; skilja ekki vegalengd milli A og B án milligöngu Miklubrautar. Það er allt í lagi. Því við erum mörg sem getum án bílsins verið og með bættri þjónustu þá verðum við fleiri. Samkvæmt nýlegri meistararitgerð þá eru nú um 800 manns sem hjóla daglega hjólastíginn í Nauthólsvík. Þarna munar um minna; ímyndaðu þér ef 800 manns til viðbótar sætu með þér í umferðinni á hverjum degi, líklega flestir einir í bíl. Fjöldi hjólreiðamanna hefur vaxið stöðugt með bættum hjólastígum. Við hefðum ekki endilega séð þessa þróun fyrir árið 2007. Ég held að margir sem hjóla í vinnuna í dag hefðu ekki séð það fyrir árið 2007 – eða einu sinni fyrir tveimur árum síðan.

Það þurfa ekki allir að leggja bílnum, bara nógu margir. Það þarf ekki að vera þú, það mættu vera allir hinir. Og þá gætir þú keyrt um eins og lávarður götunnar, í bleiser jakka í frostinu á meðan við hin renndum úlpunni upp í háls og biðum eftir vagninum. Við erum mörg til í það og við verðum fleiri. Þess vegna ættu aðdáendur einkabílsins að vera helstu talsmenn Borgarlínu.

Höfundur býr í Kópavogi og starfar í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×