Skoðun

Rauðir, gulir og grænir út­úr­snúningar Dags

Vigdís Hauksdóttir skrifar
Það er hreint með ólíkindum hvernig Dagur B. Eggertsson er að snúa út úr fyrir kjörnum fulltrúum og blaðamönnum!!! Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Dagur reynir að gera lítið úr samstarfsfélögum sínum með því að blanda inn í umræðuna einhverju sem tengist málinu bara hreint ekki neitt. Umræðan snerist nefnilega um útboð vegna rammasamnings um stýribúnað umferðarljósa. Ekki um liti á umferðarljósum! Borgarstjóri dettur alltaf í sandkassanum!

Málið snýst um að borgarstjóri er að fara fram úr sér, enda er hann búinn að sníða rammasamninginn um bættar ljósastýringar með búnaði í huga frá fyrirtækinu sem sér um búnaðinn nú þegar. Við vitum öll hvernig sá búnaður hefur virkað, eða ekki virkað. Öllu alvarlegra er að rammasamningurinn er eingöngu á vegum Reykjavíkurborgar en ekki á vegum allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu eins og lagt var upp með í samgöngusamningi sveitarfélaganna. Þarna er borgarstjóri að taka fram fyrir hendurnar á Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Mér leikur forvitni á að vita hvað Rósa Guðbjartsdóttir, formaður SSH, og Vegagerðin segir um þetta mál?

Í öllu falli ósiðlegt

Með öðrum orðum er meirihlutinn að stýra því hvaða fyrirtæki fær verkefnið - sem er í öllu falli ósiðlegt enda verkefni upp á marga milljarða, en Reykjavíkurborg ber að gæta þess að jafnræðis sé gætt þegar farið er í útboð. Verkefnið er sameiginlegt og Reykjavíkurborg á ekki að standa í þessu einhliða en ég tel að þetta sé brot á samgöngusamningum. Samningsaðilar hljóta að setja spurningarmerki við þessi vinnubrögð, þ.e. sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ríkið.

Athygli vekur að þetta er sami meirihluti og hingað til hefur verið á móti bættri ljósastýringu, en meirihlutinn sagði ítrekað með borgarstjóra í forsvari að ljósastýringar í Reykjavík væru í fínu lagi og ekki væri hægt að bæta umferðarflæðið með bættum ljósastýringum. Þetta sagði meirihlutinn á fundum fyrir kosningar, m.a. við kjósendur. Nú virðist sem annað hljóð sé komið í strokkinn hjá þessum viðreista borgarstjóra!!!

Höfundur er borgarfulltrúi Miðflokksins.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×