Viðskipti innlent

Hringbraut sameinast Fréttablaðinu

Jakob Bjarnar skrifar
Helgi Magnússon og Ingibjörg Pálmadóttir sitja tvö í stjórn Torgs.
Helgi Magnússon og Ingibjörg Pálmadóttir sitja tvö í stjórn Torgs. visir/GVA/Vilhelm
Jón Þórisson lögfræðingur hefur tekið við sem ritstjóri Fréttablaðsins og mun hann starfa við hlið Davíðs Stefánssonar. Ólöf Skaftadóttir lætur af störfum.

Þessar breytingar hafa verði gerðar samhliða því að Helgi Magnússon hefur nú keypt allan hlut í Torgi sem gefur blaðið út. Ingibjörg Pálmadóttir er þannig að mestu komin út úr fjölmiðlarekstri. Þetta kemur fram í frétt sem Fréttablaðið sjálft birti nú í morgun.

Samhliða þessum breytingum er kynnt að af einskonar samruna Hringbrautar og Fréttablaðsins verði. Lengi hefur verið um það talað að Helgi sé eigandi Hringbrautar en skráðir eigendur eru Sigurður Arngrímsson og Guðmundur Örn Jóhannsson. Jón er fyrrverandi forstjóri VBS fjárfestingabanka og aðstoðarforstjóri Íslandsbanka en DV greindi frá því að hann hafi árið 2016 verið ráðinn í sumarstarf á viðskiptadeild Morgunblaðsins.

Í áðurnefndri frétt Fréttablaðsins sjálfs af þessum vendingum segir að Jóhanna Helga Viðarsdóttir, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra hjá Torgi verður nú forstjóri og útgefandi Torgs.

Fréttablaðið hefur starfað í húsnæði við Hafnartorg en þangað er fyrirhugað að starfsemi Hringbrautar flytji og þar verði hún til húsa ásamt ritstjórn Fréttablaðsins.

„Fyrirhugað er að Guðmundur Örn Jóhannsson taki við starfi framkvæmdastjóra sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar sameinaðs fyrirtækis og Sigmundur Ernir Rúnarsson verði áfram sjónvarpsstjóri.“ Kristjón Kormákur Guðjónsson hefur stýrt vef Hringbrautar undanfarna mánuði en ekki liggur fyrir hvort hann mun halda áfram störfum og fara á yfir á frettabladid.is og/eða hvort vefirnir verði sameinaðir.


Tengdar fréttir

Kristín hættir hjá Fréttablaðinu

Kristín Þorsteinsdóttir hefur látið af störfum hjá Fréttablaðinu. Hún hefur verið útgefandi Fréttablaðsins síðustu ár og þar áður aðalritstjóri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×