Viðskipti innlent

Stýrivextir lækka í 3,25 prósent

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri. Vísir/vilhelm
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 3,25%.

Í yfirlýsingu Peningastefnunefndar segir að haldið hafi áfram að hægja á hagvexti á fyrri hluta þessa árs þótt hann hafi verið heldur meiri en gert var ráð fyrir í ágústhefti Peningamála. Meiri vöxtur skýrist einkum af hagstæðara framlagi utanríkisviðskipta þar sem eftirspurn beinist í meira mæli að innlendri framleiðslu og vegur það upp á móti samdrætti í útflutningi.

Leiðandi vísbendingar benda til þess að áfram muni hægja á vexti efnahagsumsvifa en sjá má merki þess að þjóðarbúið sé mögulega að ná viðspyrnu.

Í peningastefnunefnd sitja Ásgeir Jónsson, formaður, Rannveig Sigurðardóttir, Þórarinn G. Pétursson, Katrín Ólafsdóttir og Gylfi Zoëga
Verðbólga mældist 3,1% á þriðja ársfjórðungi og hjaðnaði milli fjórðunga. Undirliggjandi verðbólga jókst hins vegar milli mánaða í september. Mæld verðbólga var lítillega minni en spáð var í ágúst og horfur eru á að hún hjaðni hraðar en gert var ráð fyrir. Gengi krónunnar hefur hækkað og verðbólguvæntingar lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar. Taumhald peningastefnunnar hefur því aukist lítillega.

Þá bendi nýleg þróun til þess að efnahagsumsvif hafi verið þróttmeiri en gert hefur verið ráð fyrir. Hins vegar séu horfur framundan óvissar, sérstaklega í alþjóðlegum efnahagsmálum. Því gæti dregið hraðar úr innlendum hagvexti en nú er búist við.

Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.

Vextir verða því sem hér segir:

1. Daglán 5,00%

2. Lán gegn veði til 7 daga 4,00%

3. Innlán bundin í 7 daga 3,25%

4. Viðskiptareikningar 3,00%

5. Bindiskyldar innstæður, meðaltalsuppfyllt 3,00%

6. Bindiskyldar innstæður, föst bindiskylda 0,00% 

Klukkan 10:00, hefst vefútsending þar sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gerir grein fyrir ákvörðun peningastefnunefndar og svarar spurningum ásamt Rannveigu Sigurðardóttur aðstoðarseðlabankastjóra. Sýnt verður beint frá fundinum á Vísi.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, ræddi breytinguna í Bítinu á Bylgjunni í morgun.


Tengdar fréttir

Stýrivextir lækka í 3,5 prósent

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 3,5%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×