Viðskipti innlent

Segir stöðug­leika í kortunum þrátt fyrir sam­drátt í efna­hags­lífinu

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Vísir/Vilhelm
Stýrivextir voru lækkaðir um 0,25% í morgun og gert er ráð fyrir að samdráttur í ár verði 0,2%. Seðlabankastjóri segir að þrátt fyrir efnahagssamdrátt í ár séu bæði heilbrigðismerki og stöðugleiki í kortunum í efnahagslífinu.

Seðlabankinn kynnti stýrivaxtaákvörðun sína í morgun og fór yfir horfur í efnahagsmálum.

Horfur eru á að landsframleiðsla dragist saman í ár í fyrsta skipti síðan 2010 og samdrátturinn verði 0,2% sem er minna en í maí þegar spáð var 0,4% samdrætti.

Ástæðan fyrir því er fall WOW air og kyrrsetning Boeing MAX 737 vélanna, loðnubrestur og rýrnun viðskiptakjara.  Þá er búist við meiri fækkun ferðamanna en áður og meiri útflutningssamdrætti.

Þó er ekki gert ráð fyrir eins miklum samdrætti og í maí því einkaneysla er meiri og fólk virðist kaupa meira innlenda framleiðslu en áður.

Gengi krónunnar hefur hækkað um 2% frá því í vor og verðbólga minnkað og stendur nú í þremur komma einu prósenti. Þá er talið að þjóðarbúið taki við sér strax á næsta ári og hagvöxtur verði þá 1,9%.

Þetta er í fyrsta skipti sem Ásgeir Jónsson kynnir stýrivaxtarákvörðun peningamálastefnu Seðlabankans en hann tók við starfi seðlabankastjóra fyrir rúmri viku. Ásgeir segir að þrátt fyrir efnahagssamdrátt í ár séu mörg jákvæð teikn á lofti.

„Við erum að sjá töluverða fækkun ferðamanna en á sama tíma eru jákvæðar fréttir. Við erum að sjá sjávarútveg ganga mjög vel, hækkun á verði sjávarafurða og lækkun á olíuverði sem dæmi og kjarasamningarnir í vor eru að styðja við þannig að þetta eru að sumu leyti mjög góðar fréttir,“ segir Ásgeir.

Loðnubresturinn á árinu hafi ekki haft eins afgerandi áhrif eins og spáð hafði verið og kjarasamningarnir í vor styðji við efnahagslífið. Horfur séu á að hægt verði að viðhalda stöðugleika.

„Við erum að sjá aðlögun í neyslu fólks, innflutningur minnkar, við erum að sjá mjög heilbrigð merki í hagkerfinu.“

„Utanríkisviðskipti eru að ganga vel og við erum ekki að sjá viðskiptahalla sem bendir til þess að við getum farið í gegnum þessa niðursveiflu án þess að hér verði einhver kollsteypa og við getum viðhaldið stöðugleika,“ segir seðlabankastjóri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×