Körfubolti

„Ef við hefðum heyrt kynþáttaníð hefðum við gripið inn í“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kynþóttaníð verður ekki liðið og á ekki að líðast segir Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, vegna atviks sem kom upp í leik á Hornafirði.

Kinu Rochford, leikmaður Hamars, segist hafa orðið fyrir kynþáttaníði í leik Hamars og Sindra á Hornafirði í 1. deild karla á dögunum.

Hannes var ásamt varaformanni KKÍ á umræddum leik.

„Viðbrögðin eru mjög blendin. Það er afskaplega leiðinlegt ef að viðkomandi einstaklingur verður fyrir kynþáttaníði eins og hann talar um. Hann segir það og það er bara alveg á hreinu og það er hans upplifun,“ sagði Hannes í viðtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„En ég til dæmis, ásamt Guðbjörgu varaformanni og fleirum sem voru í stúkunni, við heyrðum ekki þetta.“

„Að sjálfsögðu, ef við hefðum heyrt einhvers konar kynþáttaníð, þá hefðum við gripið inn í.“

Sá sem á að hafa sagt kynþáttaníðið er barn, ólögráða einstaklingur. Foreldrar barnsins eru af erlendu bergi brotnir og tala ekki íslensku. Þeir verða að vera viðstaddir á meðan rætt er við barnið og er verið að vinna í því að finna túlk til þess að geta rætt við þau að sögn Hannesar.

Hannes fordæmdi þá sleggjudóma sem hafa verið í samfélaginu síðustu daga vegna þessa máls.

„Þessi hatursumræða sem fór í gang síðustu daga í garð þessa einstaklings, Hornafjarðar, Sindra, okkar í KKÍ. Ömurlegt ef það varð kynþáttaníð ef það varð og það á aldrei að líðast, en við verðum að passa okkur áður en við förum í sleggjudóma.“

Allt viðtalið við Hannes má sjá í spilaranum í fréttinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×