Körfubolti

„Ef við hefðum heyrt kynþáttaníð hefðum við gripið inn í“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar

Kynþóttaníð verður ekki liðið og á ekki að líðast segir Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, vegna atviks sem kom upp í leik á Hornafirði.

Kinu Rochford, leikmaður Hamars, segist hafa orðið fyrir kynþáttaníði í leik Hamars og Sindra á Hornafirði í 1. deild karla á dögunum.

Hannes var ásamt varaformanni KKÍ á umræddum leik.

„Viðbrögðin eru mjög blendin. Það er afskaplega leiðinlegt ef að viðkomandi einstaklingur verður fyrir kynþáttaníði eins og hann talar um. Hann segir það og það er bara alveg á hreinu og það er hans upplifun,“ sagði Hannes í viðtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„En ég til dæmis, ásamt Guðbjörgu varaformanni og fleirum sem voru í stúkunni, við heyrðum ekki þetta.“

„Að sjálfsögðu, ef við hefðum heyrt einhvers konar kynþáttaníð, þá hefðum við gripið inn í.“

Sá sem á að hafa sagt kynþáttaníðið er barn, ólögráða einstaklingur. Foreldrar barnsins eru af erlendu bergi brotnir og tala ekki íslensku. Þeir verða að vera viðstaddir á meðan rætt er við barnið og er verið að vinna í því að finna túlk til þess að geta rætt við þau að sögn Hannesar.

Hannes fordæmdi þá sleggjudóma sem hafa verið í samfélaginu síðustu daga vegna þessa máls.

„Þessi hatursumræða sem fór í gang síðustu daga í garð þessa einstaklings, Hornafjarðar, Sindra, okkar í KKÍ. Ömurlegt ef það varð kynþáttaníð ef það varð og það á aldrei að líðast, en við verðum að passa okkur áður en við förum í sleggjudóma.“

Allt viðtalið við Hannes má sjá í spilaranum í fréttinni.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.