Skoðun

Skuldaraskattur

Davíð Þorláksson skrifar
Árið 2010 var sérstakur skattur lagður á fjármálafyrirtæki m.a. til að afla ríkinu tekna til að vega upp á móti tapi þess vegna fjármálahrunsins. Hinir nýstofnuðu bankar áttu að greiða fyrir tjónið sem þeir sem fóru í þrot ollu, eins sérstakt og það nú er. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Bankaskatturinn er lagður á skuldir bankanna sem gerir það að verkum að fjármagnskostnaður þeirra hækkar sem eykur kostnað þeirra við lánveitingar. Sá kostnaður endar óhjákvæmilega hjá lántakendum bankanna; heimilum og fyrirtækjum.

Bankarnir eru í harðri samkeppni um húsnæðislán við lífeyrissjóðina, sem þurfa ekki að greiða bankaskatt og geta leyft sér að gera strangar kröfur. Stærri fyrirtæki eiga kost á að fjármagna sig með útgáfu skuldabréfa, sem bera ekki bankaskatt, og hjá lánveitendum erlendis. Bankaskattar eru mun hærri á Íslandi en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þetta er því ójafn leikur.

Það eru því fyrst og fremst heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki sem á endanum borga bankaskattinn. Áætlað hefur verið að sérskattar á banka jafngildi um 0,5-0,55% aukaálagi á vexti. Það þýðir að heimili sem skuldar 30 milljónir króna gæti verið að greiða um 150 þúsund krónur í bankaskatt á ári. Á sama tíma eru aðilar vinnumarkaðarins að reyna að lækka vexti með Lífskjarasamningnum.

Nú liggur fyrir frumvarp frá ríkisstjórninni þar sem bankaskatturinn er lækkaður lítillega á löngum tíma. Það er spurning hvort ekki væri réttara að breyta nafni skattsins á meðan og kalla hann sínu rétta nafni: Skuldaraskattinn.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.