Skoðun

Sælkeri í París

Steinunn Ólína skrifar
Ég heyrði sögu um daginn sem gengur á milli í hópi ungra kvenna. Nokkrar vinkonur frá New York fóru í helgarferð til Parísar og kvöldið fyrir heimferð fóru þær á næturklúbb til að ljúka ferðinni með trukki.

Ein þeirra hitti þar álitlegan mann sem bauð henni heim og hún sló til þrátt fyrir að vinkonurnar væru ekki allskostar sáttar við að hún yrði viðskila við hópinn svo stuttu fyrir brottför.

Sú ástsælna fer heim með gaurnum og þegar heim til hans er komið býður hann upp á nudd sem hún þiggur. Hann smyr hana ilmolíum og eitthvað finnst henni lyktin ankannaleg en reynir samt að njóta nuddsins. Víkur nú sögunni að vinkonunum sem halda heim í Airbnb íbúðina en þar uppdagast að þær eru lyklalausar og vinkonan fjarstadda með húslyklana.

Þær muna þá eftir því að þær eu með snjallforritið Find my friend. Með aðstoð GPS-forritsins finna þær út í hvaða byggingu vinkonan er niðurkomin og skunda þangað.

Eitthvað er nuddið að verða óþægilegt og yfirþyrmandi þegar okkar kona heyrir að utan vinkonurnar kalla á sig. Hún þakkar fyrir nuddið, klæðir sig og yfirgefur nuddarann þrátt fyrir að hann sé ekki sáttur við að hún fari.

Morguninn eftir fljúga stöllurnar heim en sú sem hafði fengið nuddið er alveg hreint viðþolslaus af kláða og steypist öll út í útbrotum og fer umsvifalaust á bráðamóttöku, beint af flugvellinum. Þar er henni haldið í rannsóknum sem enda á yfirheyrslum FBI. Nudd­olían sem flagarinn hafði borið á hana hafði innihaldið kjötmeyri, efni til að ná seigju úr kjöti.

Nuddarinn ætlaði sér sumsé aldrei að sænga hjá dömunni, hann ætlaði að éta hana.

Góða helgi!




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×