Viðskipti innlent

Bréf í Arion hækka eftir uppsagnir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það blæs um Arion banka þennan morguninn.
Það blæs um Arion banka þennan morguninn. Fréttablaðið/Stefán
Fjárfestar virðast taka fréttum af stórtækum uppsögnum hjá Arion banka, sem tilkynnt var um í morgun, fagnandi ef marka má hlutabréfamarkaðinn í morgun.

Það sem af er degi hefur verð bréfa í Arion banka hækkað um 2,26% í næstum 100 milljón króna viðskiptum. Bréf annarra félaga hefur hækkað minna, en Icelandair fylgir þó fast á hæla Arion banka með rétt rúmlega 2 prósenta hækkun.

Eins og greint var frá í morgun er uppsögnum og skipulagsbreytingum hjá Arion banka ætlað að draga úr rekstrarkostnaði og auka arðsemi bankans - sem er fjárfestum vel að skapi enda arðsemi bankans aðeins þrjú prósent á fyrstu sex mánuðum ársins.

Bankinn hefur sett sér markmið um 50% kostnaðarhlutfall og arðsemi eiginfjár umfram 10%. Uppsagnir dagsins er skref í átt að þeim markmiðum.

„Með þeim skipulagsbreytingum sem við kynnum í dag erum við að bregðast við aðstæðum til að tryggja að bankinn þjóni sínum viðskiptavinum vel á sama tíma og hann skilar hluthöfum arði,“ sagði bankastjórinn Benedikt Gíslason meðal annars.


Tengdar fréttir

Arion segir upp 100 manns

Stjórn Arion banka samþykkti á fundi sínum í morgun nýtt skipulag bankans sem tekur gildi í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×