Erlent

„Ekki gera það, þið munuð kæfa mig“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jamal Khashoggi fæddist í borginni Medina í Sádi-Arabíu árið 1958.
Jamal Khashoggi fæddist í borginni Medina í Sádi-Arabíu árið 1958. vísir/getty
Tyrkneskt dagblað birti í fyrradag afrit af hljóðupptöku sem sögð er af samtali sádi-arabíska blaðamannsins Jamals Khashoggi og morðingja hans áður en þeir myrtu hann á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl í byrjun október í fyrra.

Í frétt Sabah, blaðsins sem birti afrit af hljóðupptökunni, er fullyrt að samtal mannanna sé tekið upp inni í ræðisskrifstofunni. Tyrkneska leyniþjónustan hafi svo komist yfir upptökuna. Hinstu orð Khashoggi eru á meðal þess sem kemur fram á upptökunni.

Khashoggi hafði sem blaðamaður verið gagnrýninn á valdhafa í Sádi-Arabíu. Bandaríska leyniþjónustan telur að Mohammed bin Salman krónprins Sádi-Arabíu hafi gefið skipun um morðið. Stjórnvöld í Ríad gáfu fjölda misvísandi yfirlýsinga um dauða Khashoggi þar til þau viðurkenndu loks að hann hefði verið myrtur á ræðisskrifstofunni. Lík hans hefur enn ekki fundist. Talið er að það hafi verið bútað í sundur á skrifstofunni.

Bandaríska leyniþjónustan telur að Mohammed bin Salman krónprins Sádi-Arabíu hafi gefið skipun um morðið.Vísir/EPA
Fréttaflutningur Sabah af morðinu á Khashoggi hefur vakið heimsathygli undanfarið ár. Í frétt BBC af málinu segir þó að upplýsingar blaðsins hafi þó í einhverjum tilfellum verið véfengdar.

Nýjasta frétt blaðsins af málinu tekur umrædda upptöku fyrir. Þar er t.d. vitnað í réttarmeinafræðing (e. forensic expert) sem lýsir Khashoggi sem „dýri til að fórna“ á meðan hann bíður eftir að blaðamaðurinn mæti á ræðisskrifstofuna.

Þá virðist sem runnið hafi tvær grímur á Khashoggi þegar honum var tjáð að Interpol hefði skipað honum að snúa aftur til Ríad. Samkvæmt upptökunni neitaði Khashoggi að fylgja ýmsum skipunum mannanna, sem sögðu honum m.a. að senda syni sínum skilaboð.

Khashoggi á þá að hafa spurt morðingja sína hvort þeir hygðust byrla honum ólyfjan, sem þeir svo gerðu. Þegar Khashoggi hafði verið byrlað bað hann morðingjana um að gæta þess að halda munni hans ekki lokuðum.

„Ég er með astma. Ekki gera það, þið munuð kæfa mig,“ heyrist Khashoggi segja. Svo virðist sem þetta séu hinstu orð blaðamannsins en í frétt Sabah kemur fram að morðingjarnir hafi sett poka yfir höfuð hans og þannig kæft hann.

Í fréttinni segir einnig að á upptökunni megi heyra þegar réttarmeinafræðingurinn bútar lík Khashoggi niður.

Lengi hafa verið uppi kenningar um tilvist upptöku af hinstu augnablikum Khashoggis, að því er segir í frétt BBC. Þannig hafa tyrknesk stjórnvöld opinberlega staðfest að slíkar upptökur séu til. Ekki er þó ljóst hvernig Sabah komst yfir upptökuna.
Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.