Skoðun

Vestnorrænt samstarf til framtíðar

Vivian Motzfeldt og Guðjón S. Brjánsson og Kári Páll Højgaard skrifa
Nú er dásamlegu sumri á Vestur-Norðurlöndum lokið. Sumarið er langþráður tími hjá okkur sem búum norður við heimskaut þar sem við njótum sólríkra daga og bjartra nátta.

Undanfarnir mánuðir hafa líka verið öllum okkur tilefni til þess að minnast tímamóta í sögu okkar þjóða. Í vor fögnuðu Færeyingar 100 ára afmæli „Merkisins“, færeyska þjóðfánans. 17. júní varð íslenska lýðveldið 75 ára og 21. júní fögnuðu Grænlendingar 10 ára sjálfsstjórn.

Guðjón S. Brjánsson
Við gleðjumst hvert með öðru yfir þessum merku tímamótum. Þau gefa okkur líka tilefni til að fagna áralöngu samstarfi þjóðanna þriggja. Það samstarf hefur reynst öllum mjög vel. Í okkar augum er vestnorrænt samstarf þó enn að miklu leyti óplægður akur. Augu stórvelda heimsins hafa nú aftur opnast fyrir okkar svæði og þá er aukin samvinna landanna þriggja enn mikilvægari en áður.

Vestnorræna ráðið er einn af hornsteinum vestnorræns samstarfs þar sem þingmenn þjóðanna koma reglulega saman og ræða hagsmunamál landanna þriggja. Á næsta ári fögnum við raunar sjálf tímamótum þegar 35 ár verða liðin frá því að ráðið okkar var sett á fót.

Kári Páll Højgaard
Við ræðum ávallt þau hagsmunamál sem helst brenna á okkur hverju sinni. Nú í vetur beinum við t.d. sjónum okkar að tungumálunum okkar sem eru hornsteinn hvers samfélags. Tungumálin veita okkur öllum innri styrk en að þeim er líka sótt. Þarna getum við ýmislegt lært hvert af öðru.

Framtíð vestnorræns samstarfs er björt og við hlökkum til verkefna komandi vetrar og líflegra umræðna þegar Vestnorræna ráðið kemur saman til ársfundar í Nuuk í október.

Höfundar eru meðlimir í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×