Skoðun

Í röðinni

Óttar Guðmundsson skrifar

Á síðustu dögum og vikum hefur umferðarþunginn í Reykjavík og nærsveitum aukist til muna. Fjölmiðlar birta daglega raunasögur um Mosfellinga sem sátu í bílum sínum 1-2 klukkustundir til að komast til höfuðborgarinnar. Námfúsir nemar í HR voru þrjá tíma að komast frá Bústaðavegi inn í Nauthólsvík. Bílum hefur fjölgað gífurlega á liðnum árum en vegirnir ekki lengst að sama skapi. Svo bætast við allir útlendingarnir á bílaleigubílum sem hvorki þekkja umferðarreglur né kunna að keyra. Þjóðin vill sinn einkabíl enda ferðast einungis börn og sérvitringar á reiðhjóli eða í strætó. Ástandið batnar ekki og þessir umferðarhnútar eru komnir til að vera.



Bifreiðaframleiðendur verða að svara þessu með auknu framboði af afþreyingar- og skemmtiefni til að stytta fólki stundir. Vélarstærð skiptir æ minna máli vegna þess að hraðinn í biðröðunum er takmarkaður. Í staðinn geta menn hannað sjónvarpsskjái og leiki sem henta biðtímanum. Leikjaframleiðendur geta búið til tölvuleiki sem stjórna má úr stýrinu. Með samstilltu tölvuátaki gætu margir ökumenn leikið hver við annan meðan beðið er. Hægt væri að bjóða upp á alls konar námskeið og kennsluefni fyrir fólkið í röðunum. Venjulegur Mosfellingur ætti auðveldlega að geta lært ítölsku og þýsku í þar til gerðu tungumálaforriti fyrir raðir í stað þess að bölsótast út í borgarstjórnarmeirihlutann. Nemendur HR gætu stórbætt námsárangur sinn með því að nota tímann í röðinni. Nuddtæki fyrir höfuð og axlir ætti að vera í hverjum bíl. Þannig má nýta raðirnar á uppbyggilegan hátt. Menntuð og jákvæð þjóð stígur út úr bílnum sínum með bros á vör eftir 2-3 skemmtilegar klukkustundir í umferðarteppu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×