Golf

Ólafía og Guðrún Brá úr leik

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ólafía Þórunn hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari.
Ólafía Þórunn hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari. vísir/getty

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, komst ekki í gegnum niðurskurðinn á Cambia Portland Classic mótinu sem er hluti af LPGA mótaröðinni.

Ólafía Þórunn var tveimur höggum frá niðurskurðinum, hún fór fyrri hringina tvo á einu höggi undir pari en spila þurfti á þremur undir til þess að fara áfram.

Annar hringurinn hjá Ólafíu var mjög stöðugur, hún fékk tvo fugla og tvo skolla en spilaði annars á pari og kom í hús á pari vallarins.

Mótið var áttunda mót Ólafíu á LPGA mótaröðinni í ár, en hún er ekki með fullan þátttökurétt á mótaröðinni.

Hin ástralska Hannah Green er með fimm högga forystu á toppnum á 17 höggum undir pari eftir að hafa farið annan hringinn á sjö fuglum og einum erni.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir komst heldur ekki í gegnum niðurskurð, en hún keppti á Scandic PGA meistaramótinu í Svíþjóð. Það mót er hluti af LET Access mótaröðinni, þeirri næst sterkustu í Evrópu.

Guðrún Brá átti góðan fyrsta dag í Svíþjóð en náði sér ekki á strik á öðrum hring, spilaði á þremur höggum yfir pari og var samtals í mótinu á tveimur höggum yfir pari, sem var einu höggi frá niðurskurðinum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.