Skoðun
Lára G. Sigurðardóttir

Að fara heim

Lára G. Sigurðardóttir skrifar

Ung stúlka fylltist ótta þegar hún tók eftir hve hendur ömmu hennar skulfu þar sem hún lagði á borð. „Amma, ertu að deyja?“ spurði hún með titrandi röddu en amman hafði gengið henni í móðurstað. Amma svaraði blíðlega: „Nei elskan mín, ég er ekki tilbúin að fara heim.“

Sagan er atburður úr lífi kennara sem ég sótti nýverið tíma hjá og vakti mig til umhugsunar. Getur verið að við séum gestir á jörð? Getur verið að hið raunverulega heimili okkar sé annað en við sjáum oft fyrir okkur? Þó við leigjum eða eigum húsnæði sem við köllum heima þá er það tímabundið. Eru okkar sönnu heimkynni í annarri vídd?

George E. Vaillant sem er geðlæknir og prófessor við Harvard segir æðri mátt (spiritual­ity) snúast um tilfinningar og félagsleg tengsl – að láta sér meira annt um mannsandann eða sálina heldur en veraldlega eða líkamlega hluti.

Æðri máttur þarf ekki að vera yfirnáttúrulegt fyrirbæri heldur býr æðri máttur innra með hverju okkar. Þegar oxýtósín og endorfín slá taktinn í limbíska kerfi heilans finnum við djúpan tilgang með tilverunni. Jákvæðar tilfinningar eins og ást, umhyggja, gleði, fyrirgefning og þakklæti eru sem eldsneyti fyrir upplifun æðri máttar. Charles Darwin sagði jákvæðar tilfinningar frelsa okkur úr fjötrunum „ég og mitt“.

Það gildir einu hvort æðri máttur sé hormónaspil í heilanum eða tilvist sem skilvit okkar eiga erfitt með að nema, þá er útkoman sú sama. Að trúa á æðri mátt hefur jákvæð áhrif á heilsu okkar.

Trúandi því að æðri máttur sé hluti af tilveru okkar gerir í mínum huga dauðann bærilegri og þegar manns tími kemur að fara heim þá er gott að trúa að þar bíði manns kærleiksríkt heimili.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.