Skoðun

Skref í sjálfbærri þróun í mannvirkjagerð

Ragnar Ómarsson skrifar
Einn helsti hvatinn að mannvirkjagerð er knýjandi þörf samfélags manna til að veita athöfnum sínum skjól. Mannvirkjagerð er því í eðli sínu samfélagsleg athöfn og er því á ábyrgð okkar allra. Í samfélagi okkar treystum við því að hafa frelsi til athafna. Slíkt frelsi gerir auknar kröfur um samfélagslega ábyrgð þannig að frelsi eins skerði ekki möguleika annarra. Grænni byggð er vettvangur aðila í mannvirkjagerð til þess að axla ábyrgð á athöfnum sínum. Með aðild sinni að Grænni byggð hafa aðilar lýst því yfir að þeir séu reiðubúnir til þess að axla samfélagslega ábyrgð sína og leggja sitt af mörkum við þróun á sjálfbærari mannvirkjagerð. Þegar talað er um þróun er átt við að taka skref í áttina að einhverju markmiði, í þessu sambandi í áttina að aukinni sjálfbærni mannvirkja.

Innlend stjórnvöld hafa með mannvirkjalögum sett markmið um aukna sjálfbærni fyrir umhverfi, efnahag og samfélag sem öllum er unnt að stefna að. Þessi markmið eru þau helst að stuðla að endingu og hagkvæmni mannvirkja með því að miða gerð þeirra við allan líftíma þeirra, ásamt því að lágmarka neikvæð áhrif og tryggja aðgengi fyrir alla. En markmiðssetning dugar ekki til ein og sér og ekki stoðar að bíða eftir því að hið opinbera taki af skarið. Hvert og eitt okkar þarf að gera upp sinn hug og stíga skrefin í áttina að aukinni sjálfbærni. Þannig geta eigendur mannvirkja tekið skref í áttina að þessum markmiðum með því að forgangsraða meginþáttunum þremur; umhverfi, efnahag og samfélagi og setja fram sérstakar óskir um frammistöðu hvers mannvirkis fyrir sig á líftíma þess.

Veitendur fasteignalána geta stutt við slíka markmiðssetningu með því að fara fram á að hún sé til staðar við lánaumsókn. Hlutverk hönnuða og ráðgjafa er þá að velja vistvænustu lausnirnar sem falla best að markmiðum eigandans. Verktakar og birgjar geta lagt sitt af mörkum með því að leggja til sjálfbærari aðferðir og nota vistvænna byggingarefni. Loks getur notandi mannvirkis stuðlað að aukinni sjálfbærni með því að fylgja leiðbeiningum um vistvæna notkun mannvirkisins.

Loftslagsvandinn sem nú steðjar að mannkyninu stafar að mestu leyti af framleiðslu og notkun á orku. Mannvirkjum er ætlaður líftími langt umfram þann tíma sem mun taka mannkynið að leysa brýnasta loftslagsvandann. Nú stefna þjóðir heims á að kolefnisjafna athafnir sínar fyrir árið 2050. Við byggjum mannvirki í dag sem við ætlum að nota næstu 100 árin eða lengur. Það er nauðsynlegt að við gefum loftslagsvandanum rækilega gaum en jafnframt þurfum við að horfa lengra fram í tímann og leggja á ráðin við mannvirkjagerð þannig að þörfum nútímans sé mætt án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum.

Höfundur er byggingarfræðingur hjá Verkís hf. og stjórnarformaður Grænni byggðar.




Skoðun

Skoðun

Jón Þór Stefánsson skrifar

Sjá meira


×