Handbolti

Strákarnir misstu leikinn niður í jafntefli í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr búningsklefa íslenska liðsins.
Úr búningsklefa íslenska liðsins. Mynd/HSÍ

Íslenska sautján ára landsliðið gerði 21-21 jafntefli við Slóveníu í öðrum leik sínum á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í dag.

Íslensku strákarnir náðu því ekki að fylgja eftir frábærum sigri á Frökkum í fyrsta leiknum sínum í gær.

Kristófer Máni Jónasson var markahæstur í íslenska liðinu með sex mörk en þeir Guðmundur Bragi Ástþórsson og Arnór Viðarsson skoruðu þrjú mörk hvor.  Brynjar Vignir Sigurjónsson varði átta skot þar af tvö vítaskot.

Slóvenarnir tóku upp á því að taka Arnór Viðarsson úr umferð en hann skoraði ellefu mörk utan af velli í sigrinum á Frökkum í gær.

Íslenska liðið var tveimur mörkum yfir, 21-19, þegar 90 sekúndur voru eftir af leiknum en Slóvenar skoruðu tvö síðustu mörkin og tryggðu sér jafntefli.

Staðan var jöfn í hálfleik, 12-12, eftir að íslenska liðið hafði verið 10-7 yfir rétt fyrir hálfleik.

Íslenska liðið náði líka fjögurra marka forystu í seinni hálfleiknum, 17-13, en fékk þá á sig fjögur mörk í röð. Ísland komst aftur tveimur mörkum yfir en missti sigurinn frá sér á lokasekúndunum.

Svekkjandi fyrir strákana sem mæta Króatíu í þriðja leik riðlakeppninnar á morgun.

Ísland - Slóvenía 21-21 (12-12)

Mörk Íslands:
Kristófer Máni Jónasson 6
Guðmundur Bragi Ástþórsson 3/1
Arnór Viðarsson 3
Reynir Freyr Sveinsson 2
Tryggvi Þórisson 2
Benedikt Gunnar Óskarsson 2/1
Arnór Ísak Haddsson 1
Jakob Aronsson 1
Ísak Gústafsson 1

Varin skot:
Brynjar Vignir Sigurjónsson 8/2
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.