Skoðun
Ari Teitsson

Hverja varðar um þjóðarhag?

Ari Teitsson skrifar

Nýleg vaxtaákvörðun stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV) og viðbrögð við ákvörðuninni hafa leitt til áhugaverðrar umræðu og vakið spurningar sem virðast íhugunarefni þeim sem láta sig málið varða.

Sú fyrsta gæti verið hvort LV og stjórnendur hans varði um þjóðarhag. Á liðnum vetri virtist stefna í óefni varðandi sátt um lífskjör og raunar veruleg óvissa um hvort afstýra mætti erfiðleikum sem bitnað hefðu á fyrirtækjum og fólki, þar með talið LV og sjóðfélögum hans. Svo virðist sem tekist hafi að afstýra stóráföllum, m.a. með fyrirheitum um lækkandi vexti. Hver er ábyrgð stjórnar LV gagnvart þeim fyrirheitum?

Full þörf virðist einnig á að íhuga stöðu stjórnar LÍV sem og stöðu fjölmargra annarra stjórna sem valdar eru af félögum, samtökum eða stjórnvöldum. Starfa slíkar stjórnir (jafnvel ríkisstjórnir) ekki ætíð á ábyrgð þeirra sem valið hafa? Hlýtur ekki sú ábyrgð að vera gagnkvæm? Hefur ekki sá sem valið hefur og ábyrgð ber heimild, jafnvel skyldu, til að grípa inn í fari umbjóðendur hans gegn markmiðum þess sem valið hefur? Hljóta ekki valdir stjórnarmenn að bera stærri álitamál undir þá sem valið hafa? Er í raun skynsamlegt að ætla að stjórnir geti verið, eða eigi að vera óháðar þeim sem stjórnirnar velja?

Í ljósi þess að við erum fámenn þjóð gæti lokaspurningin verið hvort við eigum okkur framtíð sem þjóð ef færri og færri horfa til heildarhagsmuna og sameiginlegra þarfa og möguleika þjóðarbúsins?

Höfundur hefur á undanförnum 30 árum verið valinn í fjölmargar stjórnir og nefndir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.