„Fólk er búið að fá nóg. Það er búið að sprengja verðskalann. Þegar þú ert að kaupa þér pizzu fyrir 3500 krónur, fyrir einn mann, þá segir fólk stopp. Hingað og ekki lengra. Hráefnið kostar í mesta lagi 500 krónur, fer eftir álegginu! Menn eru að verðleggja sig út af kortinu.“
Mömmumaturinn hans Magga
Og það er einmitt til þess sem Maggi vill höfða með sínum nýja stað sem heitir Matbarinn, það er að segja hið gagnstæða: Að bjóða uppá rétti á viðráðanlegu verði. „Akkúrat sem ég segi. Djókverð. Það er rúm fyrir svona ódýran stað. Það þurfa allir að borða.“Maggi er þaulvanur sjónvarpsmaður. Hann gerði yfir 400 þætti um matreiðslu og matarmenningu fyrir ÍNN. Hafði af því mikla ánægju en þeirri þáttagerð lauk þegar sú stöð fór á hausinn. En, það vefst ekki fyrir Magga, reynslunnar smið í dagskrárgerðinni, að gera sérstakt kynningarmyndband fyrir sjálfan sig. Eins og sjá má hér neðar.

„Það sem þú borðar heima hjá þér og mamma eldar.“
Já, en það er nú kannski allur gangur á því?
„Kjötbollur, kótelettur í raspi, hakkabuff með lauk, eggi brúnni sósu, fiskibollur, rækjur, kartöflumús,“ segir Maggi og furðar sig á spurningunni. Í hans huga er heimilismatur heimilismatur: „Bara heimilislegir réttir. Rjómagúllas. Þessir réttir eru, skal ég segja þér, byggðir á bók sem ég gaf út um árið sem heitir Eldhúsið okkar, íslenskur hátíðarmaður og íslenskar hversdagskræsingar. Seldi ókjör af þessum bókum.“
Konan yfirtók starfsemina á Granda
Maggi ætlar að bjóða uppá hlaðborð á 1.990 krónur. „Rosalega gott verð,“ segir Maggi. Hann var að taka yfir rekstur á Gamla Siam, stað sem var þarna áður en vegna heilsubrests eiganda hefur nú lokið keppni.Maggi segir það fráleitt að þetta sé erfið staðsetning fyrir veitingastað. Eiginlega bara alls ekki: „Útlendingarnir að labba mikið þarna mikið frá Hilton, stöðugur straumur í gegn. Nóg af bílastæðum. Það hafa verið veitingastaðir í þessu húsi í tugi ára.“

Maggi byrjaði í Árbergi í Ármúla á sínum tíma. Þar var hann með þennan heimilislega mat sem hann kallar svo. Vinsælt í hádeginu en þar var hann í sex ár.
„Back to basics. Ég er með 31 ára kennitölu og ekki margir með það í þessum bransa.“