Körfubolti

Haukarnir semja við 188 sm miðherja frá Kentucky State

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brooke Wallace.
Brooke Wallace. Mynd/Fésbókarsíða Hauka
Kvennalið Hauka er búið að ganga fram samkomulagi við bandarískan leikmann fyrir komandi tímabil í Domino´s deild kvenna í körfubolta.

Körfuknattleiksdeild Hauka samdi við hina 22 ára gömlu Brooke Wallace sem spilaði með Kentucky State University í vetur.

Brooke Wallace spilaði tvö síðustu árin sín í háskólaboltanum með Kentucky State en hún byrjaði háskólaferilinn í Wayne State.

Á lokaári sínu með Kentucky State University var Brooke Wallace með 12,5 stig og 10,8 fráköst að meðaltali í leik. Brooke var einnig með 56 varin skot og 45 stolna bolta í 28 leikjum og var því líka að láta til sín taka í varnarleiknum.

Hún náði einni þrennu á tímabilinu þegar hún var með 23 stig, 11 fráköst og 10 stolna bolta í leik á móti Oakland City.

Haukarnir þurfa ekki að velta mikið fyrir sér þriggja stiga skotum Brooke því hún tók aðeins samtals þrjú slík skot á öllu síðasta tímabili og ekkert tímabilið á undan.

Haukaliðið er því að fá leikmann sem vill vera í baráttunni undir körfunni og þessir 188 sentímetrar ættu heldur betur að nýtast Haukaliðinu vel í þeirri baráttu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×