Körfubolti

Kevin Durant hafnaði fjórum milljörðum frá Golden State Warriors

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant sleit hásin í úrslitakeppninni.
Kevin Durant sleit hásin í úrslitakeppninni. Getty/Gregory Shamus

Kevin Durant ætlar ekki að nýta sér ákvæði í samningi sínum við Golden State Warriors og því laus allra mála frá félaginu.

Bandaríski fjölmiðlamaðurinn Adrian Wojnarowski sagði frá ákvörðun Kevin Durant á twitter síðu sinni í dag.Kevin Durant hefði getað fengið 31,5 milljón dollara fyrir 2019-20 tímabilið með Golden State Warriors en hann mun samt ekkert spila á tímabilinu. Þetta eru tæpir fjórir milljarðar í íslenskum krónum.

Durant skrifaði undir samning við Golden State fyrir ári síðan. Hann fékk 30 milljónir dollara fyrir 2018-19 tímabilið og það var síðan hans val hvort hann spilaði annað tímabil og fengi þá 31,5 milljón dollara.

Kevin Durant sleit hásin í lokaúrslitum NBA á dögunum og verður ekki leikfær á ný fyrr en 2020-21 tímabilinu.

Hann er að leita eftir lengri samningi og eflaust eru mörg félög tilbúinn að veðja á það að hann nái sér að fullu af meiðslunum enda frábær leikmaður á ferðinni.

Durant skoraði 32,3 stig að meðaltali í úrslitakeppninni áður en hann meiddist. Hann vann titilinn með Golden State Warriors 2017 og 2018 og var kosinn besti leikmaður lokaúrslitanna í bæði skiptin.

Durant er staddur í New York með umboðsmanni sínum Rich Kleiman þar sem þeir munu skoða það sem er í boði.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.