Skoðun

Einokunarforstjóra Landsvirkjunar svarað!

Vilhjálmur Birgisson skrifar
Eins og fram kom í pistli sem ég skrifaði í lok maí þá hef ég sem formaður Verkalýðsfélags Akraness gríðarlegar áhyggjur af atvinnuöryggi og lífsviðurværi minna félagsmanna sem starfa í orkufrekum iðnaði á Grundartanga.

Ástæður fyrir þessum áhyggjum mínum eru nýir „raforkusamningar“ sem bæði Norðurál og Elkem Ísland hafa nánast verið þvingaðir til að gera að undanförnu í skjóli einokunar Landsvirkjunar á raforkumarkaði. Reyndar er rétt að geta þess að forsvarsmenn Elkem reyndu ítrekað á liðnum árum að ná samningum við LV en án árangurs og því endaði sá ágreiningur fyrir gerðadómi.

Það hefur komið fram opinberlega að báðir þessir raforkusamningar til Elkem og Norðuráls kalla á umtalsverða hækkun á raforkuverði. Ég hef sterkan grun um að raforkuverð til t.d. Elkem muni hækka á ári á bilinu 1,1 til 1,5 miljarð sem mun klárlega þurrka upp framlegð fyrirtækisins og meira til. En rétt er að geta þess að meðaltals hagnaður Elkem frá árinu 1998 er um 500 milljónir á ári og því sér hvert mannsbarn að raforkuhækkun sem nemur á bilinu 1,1 til 1,5 miljarð hjá Elkem getur ekki gengið upp. Þetta þýðir ekki nema eitt Elkem mun ekki lifa af þetta ofbeldi og græðgisvæðingu af hálfu forstjóra Landsvirkjunar af og það er því miður staðreynd.

Ég byggi það á þeirri staðreynd að þegar til stóð að leggja sérstakan kolefnisskatt á Elkem Ísland og önnur orkufyrirtæki árið 2013 sendi fyrrverandi forstjóri Elkem Ísland eftirfarandi erindi á alla þingmenn, bæjarfulltrúa og formann Verkalýðsfélags Akraness tölvupóst. Í þessum tölvupósti frá árinu 2013 stóð eftirfarandi:

„Miðað við framleiðsluáætlanir Elkem Ísland ehf mun fyrirhuguð álagning kolefnisgjalds sem lögð verður á félagið verða um.þ.b. 430.000.000 kr árið 2013, 645.000.000 kr árið 2014 og 860.000.000 kr.árið 2015. Fyrirhugað kolefnisgjald verður því meira en tvöfalt hærra upphæð en meðal hagnaður fyrirtækisins undanfarin tíu ár. Má því vera ljóst að allar forsendur fyrir frekari rekstri Elkem Ísland ehf í framtíðinni verða gerðar að engu, en fyrirtækið hefur verið ein af megin stoðum atvinnulífs á Vesturlandi í rúmlega 30 ár.“

Takið eftir þetta skrifaði Einar Þorsteinsson fyrrverandi forstjóri Elkem Ísland á Grundartanga árið 2013 að ef þessi skattur yrði lagður á myndi það þýða lokun verksmiðjunnar og hundruð fjölskyldna hefðu misst viðurværi sitt.

En takið eftir þetta einokunarverð sem Landsvirkjun náði að knýja fram gagnvart Elkem er nánast tvöfalt hærra en þessi kolefnisskattur eða eins og áður sagði á bilinu 1,1 til 1,5 milljarða hækkun á ári.

Í ljósi þessa eru ummæli Harðar Arnarssonar forstjóra Landsvirkjunar í gær á mbl grátbrosleg en þar vísaði hann á bug ummælum mínum, um misjafnan ásetning Landsvirkjunar með samningaviðræðum við Elkem á Grundartanga. „Fjarstæðukenndur málflutningur,“ sagði einokunar forstjórinn!

Nei ég stend við hvert og eitt einasta orð sem ég sagði í grein minni í lok maí þar sem ég sagði að forstjóri Landsvirkjunar væri hægt og bítandi að slátra fyrirtækjum í orkufrekum iðnaði hér á landi og stefna þúsundum starfa í fullkomna óvissu.

Hann reyndar staðfestir einbeittan vilja sinn til að slátra Elkem á einni nóttu þegar hann segir að hann hefði viljað fá enn hærra verð en gerðadómur kvað upp enda liggur fyrir að hækkun á raforkuverði um allt 1,5 milljarða á ári mun með tímanum sturta niður í holræsið öllum rekstrarforsendum fyrirtækisins.

Afleiðingar þessa hækkunar á raforkuverði hjá Elkem eru nú þegar byrjaðar að sjást m.a. í því að fyrirtækið hefur ákveðið að slökkva einum af þremur ofnum í tæpa þrjá mánuði. Þessu til viðbótar liggur fyrir að fyrirtækið um fækka starfsfólki um tæp 10% sem gert verður með náttúrulegri fækkun.

Ég spyr hvar eru stjórnvöld? Og hvar er samkeppniseftirlitið í ljósi þess að Landsvirkjun mataði gerðadóm á upplýsingum um hvaða raforkuverð þeir vildu fá og hvaða raforkuverð þeir hafa verið að semja um við önnur fyrirtæki.

Skoðum á hvaða vegferð Landsvirkjun er gagnvart orkufrekum iðnaði á Íslandi, iðnaði sem hefur skilað Landsvirkjun gríðarlegum hagnaði á liðnum árum eða sem nemur tæpum 10 milljörðum á ári.

Byrjum á Ísal í Straumsvík en þar knúði Landsvirkjun fram gríðarlega hækkun á raforkuverði árið 2010 ef ég man þetta rétt en síðustu ár hefur Ísal verið rekið með bullandi tapi svo nemur milljörðum og bara á síðasta ári nem tap Ísals 5,5 milljörðum.

Skoðum Norðurál sem reyndi ítrekað að ná samningum við Landsvirkjun sem endaði með því að fyrirtækið gerði samning um 161 MW til einungis 4 ára en það kæmi mér ekki á óvart að þessi samningur muni auka kostnað Norðuráls frá 3 til 4 milljörðum á ári.

En ég tel að þessi samningur Norðuráls sé nú þegar farinn að hafa neikvæð áhrif á atvinnuöryggi hjá mínum félagsmönnum þótt hann taki ekki gildi fyrr en seinnipart þessa árs. Rétt er í því samhengi að geta þess að nú þegar er farið er búið að segja upp 20 manns upp og einnig hefur fyrirtækið ekki ráðið í störf þegar fólk hefur hætt hjá fyrirtækinu. Mér segist sá hugur að það hafi fækkað jafnvel um 40 manns hjá Norðuráli á liðnum mánuðum vegna vaxandi rekstrarerfiðleika enda er ekki bara raforkuverðið að tvöfaldast heldur hafa afurðaverð lækkað umtalsvert og stendur álverð í sögulegu lágmarki eða um 1700 dollarar fyrir tonnið.

Ég þarf ekkert að ítreka hvaða afleiðingar hækkunar á raforkuverði til Elkem mun þýða, enda blasir það við öllum sem kynna sér þetta mál að þessu fyrirtæki mun blæða hægt og rólega út ef þessi umtalsverða hækkun mun verða að veruleika. Það sorglega er að forstjóri Landsvirkjunar afhjúpaði sig algerlega þegar hann sagði að hann hefði viljað sjá raforkuverð til Elkem hækka enn meira eða með öðrum orðum hann vildi skera algerlega á allar slagæðar fyrirtækisins þannig að því myndi blæða út á svipstundu.

Já ég spyr enn og aftur hvar eru stjórnvöld og ætla þau að leyfa Landsvirkjun að slátra lífsviðurværi þúsunda fjölskyldna í orkufrekum iðnaði og setja lífsafkomu sveitarfélaga í fullkomið uppnám? Munum að Landsvirkjun skilaði 14 milljörðum í hagnað á síðasta ári og á fyrsta ársfjórðungi þessa árs er hagnaður 5,8 milljarðar og á síðustu árum hefur hagnaðurinn hjá LV verið um eða yfir 10 milljarðar á ári.

Að lokum vil ég segja þetta: Erum við Akurnesingar ekki búin að þurfa að þola nóg vegna aðgerðaleysis stjórnvalda þegar kemur að atvinnuöryggi í okkar heimabyggð? En eins og allir vita er búið að rústa sjávarútveginum á Akranesi eftir að HB Grandi skellti í lás og flutti allar aflaheimildir í burtu. En árið 1998 störfuðu um 400 manns hjá útgerðafyrirtækinu Haraldi Böðvarssyni og fyrirtækið greiddi um 2 milljarða í laun og nú er allt farið.

Ætla stjórnvöld aftur að horfa aðgerðalaus á hitt fjöreggið okkar skagamanna mölbrotna hægt og bítandi vegna græðisvæðingar forstjóra Landsvirkjunar?




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×