Skoðun

Kettir

Kolbeinn Marteinsson skrifar
Kolgrímur, Doppa, Strav­inský, Hnoðri, Zeta, Stella og Kári. Þetta eru allt kettir sem hafa búið með mér um tíma. Ég segi búið með, því ketti á maður ekki eins og önnur gæludýr heldur velja þeir að búa með manni út frá ísköldu hagsmunamati, út frá fríu fæði og húsnæði. Af áðurnefndum köttum hafa tveir orðið fyrir bíl, einn veiktist af kattafári og dó, einn var svæfður sökum meiðsla en aðeins einn dó úr elli. Tveir hinir síðastnefndu búa með mér í dag.

Kettir eru að mínu mati fullkomin gæludýr sem ekki krefjast mikillar fyrirhafnar. Aldrei þarf að fara út með kött til að hreyfa hann eða pissa. Eins getur maður leyft sér að skilja kött eftir heima ef farið er í frí, sé þess gætt að einhver komi og gefi honum að éta. En stærsta ástæða þess að mér þykir mikið til katta koma er að þeir búa yfir ólíkum og fjölbreytilegum persónuleikum.

Staðan heima við er í dag sú að öðrum kettinum (Stellu) er fremur illa við mig og hefur aldrei fyrirgefið mér að hafa skammað sig fyrir áratug. Hinn kötturinn (Kári) hefur hins vegar á mér mikla ást. Þannig sækir hann stöðugt í mig, leggst á bringuna á mér, malar og lygnir aftur augunum og fagnar mér þegar ég kem heim. Hann fer aldrei eftir reglum, hann veit vel að hann má ekki drekka vatn úr glösum okkar, sofa í rúmunum og ekki fara upp á eldhúsborð en hann gerir það allt samt. Ég las að kettir skilji svona reglur jafn vel og hundar en að það hvarfli einfaldlega ekki að þeim að fara eftir þeim.

Mögnuðust er þó tilhugsunin, þar sem ég ligg með köttinn malandi við hlið mér, að ef ég myndi snögglega skreppa saman og yrði á stærð við hamstur þá myndi hann éta mig án þess að hika.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×