Handbolti

Flensburg varði titilinn | Alfreð kvaddi með silfri og Guðjón með tíu mörkum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Meistarinn þakkar fyrir sig.
Meistarinn þakkar fyrir sig. vísir/getty

SG Flensburg-Handewitt er þýskur meistari í handbolta eftir að hafa unnið 27-24 sigur á Bergrischer í síðustu umferð deildarinnar í dag.

Flensburg var fimm mörkum yfir í hálfleik, 13-8, en mest náðu Bergrischer að minnka muninn í eitt mark í síðari hálfleik. Nær komust þeir ekki og mikill fögnuður Flensburg í leikslok.

Svíinn Jim Gottfridsson var markahæstur í liði Flensburg með sex mörk en markahæstur Bergrischer var Arnór Þór Gunnarsson með átta mörk. Bergrischer endar í sjöunda sætinu.

Alfreð Gíslason kveður þýska boltann með silfri en Kiel endaði tveimur stigum á eftir Flensburg á toppnum. Alfreð og lærisveinar hans unnu 30-26 sigur á Hannover-Burgdorf í síðustu umferðinni.

Alfreð hefur verið þjálfari Kiel frá því 2008 en tilkynnti að nú væri hann hættur eftir þetta tímabil. Kiel tapaði einungis þremur leijkum í deildinni en náði hins vegar ekki að vinna titilinn.

Guðjón Valur Sigurðsson var einnig að kveðja þýska boltann en hann er að ganga í raðir PSG. Rhein-Neckar Löwen tapaði 28-26 gegn Leipzig en Guðjón endaði með stæl; var markahæstur með tíu mörk. Löwen endar í fjórða sætinu.

Það verður enginn Evrópubolti í Berlín á næsta ár en Füchse Berlin tapaði fyrir Wetzlar, 27-25, í lokaumferðinni í dag og endar Berlínarliðið því í sjötta sætinu.

Bjarki Már Elísson er að kveðja Refina en hann gengur í raðir Lemgo en landsliðsmaðurinn skoraði eitt mark í kveðjuleiknum sínum í dag.

Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Erlangen enda í 9. sæti deildarinnar eftir 28-27 sigur á 1898 Stuttgart. Flottur árangur hjá Erlingi.

Hannes Jón Jónsson og félagar í Bietigheim eru fallnir niður í þýsku B-deildina eftir jafntefli gegn Gummersbach í lokaumferðinni. Bæði lið falla um deild eftir jafnteflið eftir að Friesenheim vann eins marks sigur á Minden. Þetta er í fyrsta sinn sem Gummersbach spilar í B-deildinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.