Körfubolti

Jón Axel við bandarísku blaðamennina: Pabbi spilaði á móti Dirk Nowitzki þegar hann var 17 ára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson í leik með Davidson háskólaliðinu.
Jón Axel Guðmundsson í leik með Davidson háskólaliðinu. Getty/ Lance King
Jón Axel Guðmundsson hitti blaðamenn eftir æfingu með Sacramento Kings og félagið sýndi viðtalið við íslenska bakvörðinn á samfélagsmiðlum sínum.

Jón Axel Guðmundsson æfði hjá Sacramento Kings í gær en hann er að kynna sig fyrir nýliðaval NBA-deildarinnar sem fer fram 20. júní næstkomandi.

Jón Axel er 22 ára gamall og hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína með Davidson háskólaliðinu en Steph Curry spilaði einnig með þeim skóla.  Jón Axel var með 16,9 stig, 7,3 fráköst og 4,8 stoðsendingar að meðaltali í leik á sínu þriðja tímabili með liðinu.

Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Jón Axel.





„Mér finnst ég vera leikmaður sem getur gert allt. Ég get skorað ef þörf er á því en ég get líka gefið boltann. Ég er tilbúinn að leggja mig fram í öllu sem ég geri og hjálpa mínu liði að vinna,“ sagði Jón Axel. Hann var einnig spurður út í það hvernig hann byrjaði í körfubolta á Íslandi.

„Foreldrar mínir spiluðu bæði körfubolta og pabbi minn var atvinnumaður í Þýskalandi. Hann spilaði meðal annars á móti Dirk Nowitzki þegar hann var sautján ára. Körfuboltinn kemur frá foreldrum mínum,“ sagði Jón Axel.

Foreldrar hans eru Guðmundur Bragason og Stefanía Sigríður Jónsdóttir sem bæði léku A-landsleiki fyrir Íslands. Stefanía Sigríður lék sex landsleiki og Guðmundur er leikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi með 170 leiki fyrir A-landslið karla.

Jón Axel sagði hafa fylgst vel með liði Sacramento Kings enda hefur hann haft lengi áhuga á NBA-deildinni.

„Mér finnst Kings-liðið vera lið á uppleið og ég held að þeir verði í úrslitakeppninni á næsta tímabili. Það er björt framtíð hjá félaginu,“ sagði Jón Axel en það má hlusta á allt viðtalið hér fyrir ofan. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×