Handbolti

Segir að pressan sé á Selfyssingum: „Eiga að njóta þess að spila svona leik“

Anton Ingi Leifsson skrifar

Það verður ekki létt verk fyrir Selfyssinga að landa Íslandsmeistaratitlinum í handbolta á heimavelli í kvöld segir Ásbjörn Friðriksson fyrirliði FH.

Pressan verður öll á Selfoss í kvöld þegar Haukar koma í heimsókn en Selfoss er 2-1 yfir í einvíginu eftir sigur í þriðja leik liðanna á Ásvöllum á sunnudaginn.

Ásbjörn ræddi um leikinn við Guðjón Guðmundsson en Ásbjörn segir að nú sé pressan komin af Haukunum yfir á heimaliðið í kvöld, Selfoss.

„Þetta er í fyrsta skipti í seríunni sem pressan er komin yfir á þá. Þeir vilja klára þetta á sínum heimavelli fyrir framan sína stuðningsmenn en Haukarnir hafa áður farið í svona leik og náð sigri,“ sagði Ásbjörn.

„Þeir knýja þá fram oddaleik með sigri og þá þurfa þeir að ná þriðja sigrinum á Ásvöllum sem gæti orðið erfitt fyrir þá.“

Margir ungir og skemmtilegir leikmenn eru í herbúðum Selfyssinga en Ásbjörn segir að þeir eigi að njóta leiksins í kvöld.

„Þetta verður frábær reynsla og skemmtun fyrir þessa stráka. Þeir eiga að njóta þess að spila svona leik. Þú spilar ekki marga leiki á ferlinum með bikarinn í húsinu og með sigri geturu klárað titilinn fyrir framan þína stuðningsmenn.“

„Þeir eiga ekki eftir að spila marga svona leiki. Vonandi einhverja þeirra vegna en þeir þurfa að njóta þess á morgun og reyna að klára þennan titil,“ sagði Ásbjörn.

Viðtalið við Ásbjörn má sjá í spilaranum hér að ofan en flautað verður til leiks klukkan 19.30 í kvöld. Seinni bylgjan hefur upphitun sína 18.45 í beinni á Stöð 2 Sport HD.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.