Skoðun

Stóraukin aðsókn í kennaranám

Guðríður Arnardóttir skrifar
Þau ánægjulegu tíðindi berast nú að aðsókn í kennaranám hefur stóraukist þar sem heildarfjöldi umsækjenda um M.Ed nám hefur aukist úr 186 í 264. Þetta er aukning um ríflega 40%. Án efa má þakka aðgerðaráætlun stjórnvalda um þennan aukna áhuga þar sem fimmta árið verður nú launað starfsnám að hluta, nemar munu njóta sérkjara hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og síðast en ekki síst geta kennaranemar sótt um allt að 800 þúsund króna námsstyrk.

Lofa skal það sem vel er gert og hér má glögglega sjá að skýr markmið og raunhæfar aðgerðir skila okkur strax árangri.

Fyrir Alþingi liggur hins vegar frumvarp um breytingar á lögum um menntun og ráðningu kennara. Umdeilt frumvarp sem er um margt gallað. Meðal annars er gert ráð fyrir einu leyfisbréfi kennara í leik-, grunn- og framhaldsskóla með tilheyrandi gjaldfellingu sérhæfingar á þessum þremur skólastigum. Framhaldsskólakennarar hafa bent á að frumvarpið þarfnist vandaðri rýni og alls ekki óvíst að sátt megi skapa meðal kennarastéttanna um ný frumvarpsdrög á nýju þingi á komandi hausti.

Félag framhaldsskólakennara ásamt okkar helstu sérfræðingum í menntun kennara hafa eindregið varað við frumvarpinu og teljum við það þokkalega byrjun á máli sem þarf að vinna betur.

En Alþingi getur án afleiðinga frestað afgreiðslu frumvarpsins og gefið okkur svigrúm til að rýna það frekar og skoða þá ágalla sem á málinu eru. Aðgerðaáætlun mennta- og menningarmálaráðherra stendur óhögguð hvort sem er enda um sjálfstæða aðgerð að ræða.

Höfundur er formaður Félags framhaldsskólakennara.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.