Umfjöllun og viðtöl: Haukar - ÍBV 29-26 | Haukar komnir í úrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tjörvi er leikstjórnandi Hauka.
Tjörvi er leikstjórnandi Hauka. vísir/vilhelm
Haukar eru komnir í úrslit Olís-deildar karla eftir sigur á ÍBV, 29-26, í oddaleik á Ásvöllum í dag. Haukar mæta Selfossi í úrslitarimmunni sem hefst á þriðjudaginn.

Haukar byrjuðu leikinn af miklum krafti, skoruðu fyrstu þrjú mörkin og náðu tvisvar fjögurra marka forystu.

Eyjamenn réðu ekkert við skyttur Hauka sem keyrðu grimmt í bakið á gestunum við hvert tækifæri. Vörn heimamanna var sterk og Grétar Ari Guðjónsson varði vel í markinu.

En ÍBV gafst ekki upp og saxaði á forskotið. Sigurbergur Sveinsson átti góða innkomu í sóknina og þá varði Haukur Jónsson vel eftir að hann kom í markið í stað Björns Viðars Björnssonar.

Staðan í hálfleik var 13-11, Haukum í vil. ÍBV skoraði tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleik og jafnaði í fyrsta sinn í leiknum, 13-13.

Þá kom frábær 6-0 kafli hjá Haukum sem náðu heljartaki á leiknum.

Eftir þennan kafla var brekkan ansi brött fyrir Eyjamenn. Þeir gerðu heiðarlega tilraun til að komast aftur inn í leikinn en munurinn reyndist of mikill. Lokatölur 29-26, Haukum í vil.

Af hverju unnu Haukar?

Haukar byrjuðu báða hálfleikana af miklum krafti og náðu frumkvæðinu. Vörn heimamanna var öflug og Grétar var frábær í markinu.

Seinni bylgja Hauka var virkilega beitt og skilaði einföldum mörkum sem létti á sóknarleiknum.

Eyjamenn áttu ágætis kafla í leiknum en of margir lykilmenn þeirra voru fjarri sínu besta í dag.

Hverjir stóðu upp úr?

Daníel byrjaði leikinn af miklum krafti og skoraði þrjú af fyrstu fimm mörkum Hauka. Hann hafði hægt um sig það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en vaknaði heldur betur til lífsins í þeim seinni og endaði með átta mörk. Adam Haukur Baumruk var frábær með sjö mörk og afbragðs skotnýtingu.

Brynjólfur Snær Brynjólfsson lék ekki með Haukum í dag. Halldór Ingi Jónasson fékk tækifæri í hans stað og nýtti það frábærlega. Hann skoraði sex mörk úr jafn mörgum skotum.

Grétar Ari var magnaður í markinu eins og áður sagði og varði tæplega helming þeirra skota sem hann fékk á sig. Þá varði Andri Sigmarsson Scheving tvö vítaköst.

Elliði Snær Viðarsson var langbesti leikmaður ÍBV í dag og átti sinn besta leik í úrslitakeppninni.

Hvað gekk illa?

Eyjamenn voru sofandi í byrjun beggja hálfleikja. Sóknarleikurinn var slakur og lykilmenn fundu sig ekki. Fannar Þór Friðgeirsson var afleitur sem og Hákon Daði Styrmisson. Kristján Örn Kristjánsson var auk þess alltof misjafn.

Hvað gerist næst?

Eyjamenn eru komnir í sumarfrí eftir erfitt tímabil. Haukar eru hins vegar komnir í úrslit í fyrsta sinn síðan 2016.

Haukar eru með heimavallarréttinn gegn Selfossi og fyrsti leikur liðanna fer fram á Ásvöllum á þriðjudaginn.

Halldór Ingi: Hef þurft að bíða eftir mínu tækifæri

Halldór Ingi Jónasson átti frábæran leik þegar Haukar tryggðu sér sæti í úrslitum Olís-deildar karla með sigri á ÍBV í dag. Halldór fékk stærra tækifæri vegna meiðsla Brynjólfs Snæs Brynjólfssonar, lék allan leikinn og skoraði sex mörk úr jafn mörgum skotum.

„Binni hefur verið flottur upp á síðkastið og ég hef þurft að bíða eftir mínu tækifæri. En ég reyndi að nýta það eins vel og ég gat,“ sagði Halldór eftir leik.

Haukar byrjuðu bæði fyrri og seinni hálfleikinn af gríðarlegum krafti sem skipti sköpum að mati Halldórs.

„Það munaði öllu, að gefa tóninn og byggja upp forskot. Ef við hefðum ekki byrjað seinni hálfleikinn eins vel og við gerðum hefðum við ekki getað leyft okkur að gefa eftir undir lokin. En þetta slapp fyrir horn,“ sagði Halldór en Eyjamenn komu með áhlaup undir lok leiks.

Haukar mæta úthvíldum Selfyssingum í úrslitaeinvíginu sem hefst á þriðjudaginn. Halldór segir að það geti þó unnið með Haukum að hafa farið í gegnum fimm leiki gegn ÍBV.

„Ég myndi segja að þetta gæti nýst okkur. Við erum búnir að spila okkur vel saman og undir pressu. Það er gaman að spila sem flesta leiki,“ sagði Halldór sem kveðst spenntur fyrir úrslitaeinvíginu.

„Já, mjög svo. Þetta hafa verið hörkuleikir. Við höfðum betur í deildinni og ætlum ekkert að breyta því.“

Erlingur: Fannst við aldrei líklegir til að jafna

Haukar fóru með sigur af hólmi í oddaleik liðsins gegn ÍBV í dag en Erlingur, þjálfari ÍBV, var vitaskuld svekktur eftir leik.

„Við erum auðvitað svekktir að við erum dottnir út. Við byrjuðum leikinn mjög illa sóknarlega og það tók okkur langan tíma að komast inn í leikinn. Það þýddi að við þurftum að reyna að komast inní leikinn með leiðum sem við erum ekki vanir og það fór mikil orka í það.“

„En ég vil nota tækifærið og óska Haukum til hamingju, þeir voru betri í dag.“

ÍBV fór heldur illa af stað í leiknum.

„Eins og ég segi þá var sóknarleikurinn að hökkta, við vorum síðan ekki tilbúnir varnarlega og já eflaust smá stress, ég veit ekki.“

Þrátt fyrir mikla yfirburði Hauka nánast allan leikinn þá kom kafli í seinni hálfleiknum þar sem Eyjamenn voru líklegir að jafna metin. Erlingur var þó ekki sammála því.

„Ef ég á vera alveg hreinskilinn, eins og leikurinn spilaðist þá fannst mér við aldrei líklegir að fara að jafna. Við fengum séns, eða í raun pínulítinn séns.“ 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira