Handbolti

Sjáðu magnað mark Hauks í fyrsta úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Þrastarson, 18 ára gamall leikmaður Selfoss og íslenska landsliðsins í handbolta, spilaði stórvel þegar að Selfyssingar unnu Hauka, 27-22, í fyrsta leik lokaúrslita Olís-deildar karla í gærkvöldi en strákarnir úr mjólkurbænum leiða nú einvígið, 1-0.

Haukur hafði hægt um sig í markskorun en hann skoraði aðeins þrjú mörk í sjö skotum. Hann skapaði aftur á móti tíu færi, gaf níu stoðsendingar, var með fjórar löglegar stöðvanir í varnarleiknum og fékk hæstu einkunn HB Statz af öllum útileikmönnum leiksins eða 8,2.

Eitt mark Hauks voru algjör töfrabrögð en það var ótrúlegt undirhandarskot í algjörri neyð þegar að höndin var komin upp hjá dómurunum og varnarveggur Haukanna búinn að verja bæði skot frá Hauki og Árna Steini Steinþórssyni.

Selfyssingar áttu bara einn séns eftir og bauð Haukur þá upp á geggjað undirhandarskot meðfram gólfinu og á milli fóta Grétars Ara Guðjónsonar í markinu. Selfyssingar, sem voru einum færri á þessum tímapunkti, náðu að eyða mínútu af klukkunni og komust fjórum mörkum yfir, 24-21, þegar að tæpar fimm mínútur voru eftir.

Markið magnaða má sjá hér að ofan en eins og áður hefur verið fjallað um eru þessi ótrúlegu skots Hauks engin tilviljun. Þetta hefur hann æft með bróður sínum, Erni Þrastarsyni, þjálfara kvennaliðs Selfoss, frá því að hann var gutti.

Annar leikurinn í úrslitaeinvíginu fer fram í Hleðsluhöllinni á Selfossi á föstudagskvöldið klukkan 19.30 en upphitun Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport HD hefst klukkan 18.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×