Handbolti

Hörmungar heimaliðsins í fyrsta leik lokaúrslitanna héldu áfram í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukamaðurinn Daníel Ingason í leiknum á móti Selfossi í gær.
Haukamaðurinn Daníel Ingason í leiknum á móti Selfossi í gær. Vísir/Vilhelm

Í sjöunda skiptið á níu árum tapar heimaliðið fyrsta leik í lokaúrslitunum í úrslitakeppni karla í handbolta.

Það hefur reynst heimaliðunum erfitt að vinna fyrsta leik í lokaúrslitum handboltans undanfarin tímabil. Aðeins tveimur af síðustu níu hefur tekist það.

Selfyssingar stálu heimavallarréttinum í gær í fyrsta leik úrsliteinvígis síns á móti Haukum í úrslitakeppni Olís deildar karla í handbolta.

Selfoss er sjöunda útiliðið á síðustu níu árum sem vinnur fyrsta leik lokaúrslitanna og fimm af hinum sex hafa síðan farið alla leið og unnið Íslandsmeistaratitilinn.

Einu heimaliðin sem hafa unnið fyrsta leik í lokaúrslitum frá 2011 eru lið ÍBV í fyrra og lið Hauka frá 2014. Haukaliðið frá 2014 tapaði titlinum með tapi fyrir ÍBV í oddaleik á heimavelli.

Gunnar Magnússon var líka þjálfari Haukaliðsins sem komst yfir það að byrja lokaúrslitin svona illa.

Haukaliðið frá árinu 2016 eru nefnilega eina liðið í sögu úrslitakeppninnar sem hefur komið til baka eftir svona áfall.

Haukar urðu Íslandsmeistarar vorið 2016 þrátt fyrir að tapa fyrsta leik á heimavelli á móti Aftureldingu. Haukarnir jöfnuðu metin með sigri í Mosfellsbænum í leik tvö og unnu svo einvígið í oddaleik sem var jafnframt eini heimsigur Haukanna í úrslitaeinvíginu.

Öll hin átta heimaliðin í sögu úrslitakeppni karla sem hafa tapað leik eitt á heimavelli í lokaúrslitunum hafa þurft að sætta sig við silfurverðlaun.

Fyrsti leikur lokaúrslitinna frá 2011 til 2019:
Leikir: 9
Heimsigrar: 2 (2014, 2018)
Útisigrar: 7 (2011, 2012, 2013, 2015, 2016, 2017, 2019)
Mörk heimaliðs að meðaltali: 24,7
Mörk útiliðs að meðaltali: 26,0
Nettó: Útilið +12

Félög sem hafa tapað fyrsta leik á heimavelli í lokaúrslitum í úrslitakeppni karla í handbolta (1992-2005, 2009-):
Haukar 2019 - ???
FH 2017 - tapaði 3-2 á móti Val
Haukar 2016 - vann 3-2 á móti Aftureldingu
Afturelding 2015 - tapaði 3-0 á móti Haukum
Haukar 2013 - töpuðu 3-1 á móti Fram
FH 2012 - tapaði 3-0 á móti HK
Akureyri 2011 - tapaði 3-1 á móti FH
Fram 1998 - tapaði 3-1 á móti Val
KA 1996 - tapaði 3-1 á móti Val
Haukar 1994 - töpuðu 3-1 á móti ValAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.