Viðskipti innlent

Signý og Þórhallur nýir framkvæmdastjórar hjá Sýn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Signý Magnúsdóttir og Þórhallur Gunnarsson hefja störf hjá Sýn á næstu vikum
Signý Magnúsdóttir og Þórhallur Gunnarsson hefja störf hjá Sýn á næstu vikum
Sýn hf. hefur ráðið Signýju Magnúsdóttur sem fjármálastjóra Sýnar og Þórhall Gunnarsson sem framkvæmdastjóra Miðla, en undir Miðla heyra m.a. fjölmiðlarnir Stöð 2, Stöð 2 sport og útvarpsstöðvarnar Bylgjan, FM957 og Xið977 auk Vísis. Signý tekur til starfa þann 1. júní næstkomandi en Þórhallur 22. maí. 

Í tilkynningu frá Sýn til Kauphallarinnar er drepið á ferli þeirra beggja. Þar segir meðal annars að Signý Magnúsdóttir hafi lokið meistaranámi í reikningsskilum og endurskoðun við Háskóla Íslands árið 2007 og hafi hlotið löggildingu til endurskoðunar árið 2011.

Signý hóf störf hjá Deloitte árið 2006 og varð meðeigandi á endurskoðunarsviði félagsins árið 2013. Hjá Deloitte sinnti Signý einna helst endurskoðun og ráðgjöf á sviði reikningsskila fyrir meðalstór og stór fyrirtæki, þar á meðal skráð fyrirtæki og fyrirtæki sem starfa í alþjóðlegu umhverfi. Signý er yfirmaður reikningsskilaþjónustu Deloitte ásamt því að vera í forsvari fyrir líftækni- og heilbrigðishóp Deloitte. Signý situr í Reikningsskilaráði.

Þá er Þórhallur Gunnarsson með meistaragráðu í sjónvarpsþáttagerð frá Goldsmiths, University of London og hefur undanfarin 6 ár verið framkvæmdastjóri sjónvarps og kvikmyndadeildar Sagafilm. Þar áður var hann dagskrárstjóri RÚV, ritstjóri Kastljóss, auk þess sem hann hefur stýrt fjölmörgum sjónvarpsþáttum af öllu tagi, m.a. Íslandi í dag á Stöð 2. Þórhallur hefur átt sæti í framkvæmdastjórn RÚV og stjórn Sagafilm. Hann hefur undanfarin ár verið framleiðandi margra stærstu sjónvarpsþátta á Íslandi, hvort sem um er að ræða leiknar sjónvarpsþáttaseríur, heimildarmyndir, fræðsluefni eða skemmtiþætti. Þórhallur kennir einnig miðlun upplýsinga við MBA nám Háskóla Íslands.

 

Vísir er í eigu Sýnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×