Handbolti

Bara spænskir þjálfarar í undanúrslitum Meistaradeildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Xavi Pascual hefur komið Börsungum sjö sinnum í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.
Xavi Pascual hefur komið Börsungum sjö sinnum í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu. vísir/getty
Öll fjögur liðin sem komust í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu eru með spænska þjálfara.

Danski handboltamaðurinn og handboltasgúrúinn Rasmus Boysen benti á þessa skemmtilegu staðreynd á Twitter.





Barcelona, Kielce, Vardar og Veszprém tryggðu sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildarinnar um helgina. Að venju fer úrslitahelgin fram í Lanxess-höllinni í Köln fyrstu helgina í júní.

Xavi Pascual þjálfar Aron Pálmarsson og félaga í Barcelona. Hann hefur sjö sinnum komið Barcelona til Kölnar síðan hann tók við liðinu 2009. Pascual gerði Börsunga að Evrópumeisturum 2011 og 2015.

Dujshebaev, sem er fæddur í Kirgistan en er með spænskt ríkisfang, er einnig fastagestur í Köln. Hann kom Ciudad/Atlético Madrid til Kölnar þrjú ár í röð (2010-12) og er nú búinn að koma Kielce í þrígang í undanúrslitin. Hann gerði Kielce að Evrópumeisturum 2016. Dujshebaev gerði Ciudad Real einnig að Evrópumeisturum 2006, 2008 og 2009 en þá var leikið með öðru fyrirkomulagi.

Roberto García Parrando, sem þjálfar Vardar, og David Davis, þjálfari Veszprém, eru hins vegar komnir í fyrsta sinn í undanúrslit Meistaradeildarinnar sem þjálfarar. Þeir fóru reyndar báðir til Kölnar sem leikmenn Ciudad/Atlético Madrid og Davis var aðstoðarþjálfari Vardar þegar liðið varð Evrópumeistari 2017.

Auk þess að þjálfa Veszprém er Davis þjálfari egypska landsliðsins. Hann var einn sjö spænska þjálfara á HM í Danmörku og Þýskalandi í janúar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×