Skoðun

Saman til sjálfbærni á norðurslóðum

Guðlaugur Þór Þórðarson skrifar
Á morgun renna upp tímamót á sviði norðurslóðasamvinnunnar þegar Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu til næstu tveggja ára. Fullyrða má að hlutverk ráðsins hafi aldrei verið brýnna en nú og athygli á málefnum norðurslóða aldrei meiri samfara hlýnun loftslags og sviptinga í alþjóðastjórnmálum.

Undir yfirskriftinni „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“ leggur Ísland áherslu á sjálfbæra þróun í efnahagslegu, umhverfislegu og félagslegu tilliti og beinir sjónum sérstaklega að málefnum hafsins, loftslagsmálum og grænum orkulausnum, svo og fólkinu á norðurslóðum.

Á vettvangi Norðurskautsráðsins hefur um árabil verið unnið mikilvægt starf við að meta ástand hafsins. Við munum lyfta málefnum hafsins í okkar formennskutíð og beina sérstaklega kastljósinu að plastmengun í norðurhöfum, sem og bláa hagkerfinu og nýsköpun sem til dæmis lýtur að fullnýtingu sjávarafurða.

Ummerki um loftslagsbreytingar eru hvergi jafn sýnileg og á norðurslóðum þar sem hitastigið hefur hækkað tvöfalt meira en heimsmeðaltalið. Um leið hækkar sjávarhitinn, hafís minnkar og jöklar hopa. Í formennskutíð Íslands verður lögð áhersla á vöktun og greiningu og unnið að hagkvæmum lausnum til orkuskipta í litlum og afskekktum samfélögum samhliða áframhaldandi vinnu við að draga úr losun skammlífra mengunarefna.

Síðast en ekki síst verður að styðja við sjálfbæra efnahagsþróun á norðurslóðum í þágu þeirra fjögurra milljóna sem búa á svæðinu. Grípa þarf tækifæri sem felast í tækniþróun og bættum samgöngum til að styrkja nýsköpun og fjölbreytta atvinnuvegi. Á formennskutímanum heldur Ísland enn fremur áfram að leiða verkefni um jafnrétti kynjanna á norðurslóðum.

Framundan eru ærnar áskoranir sem ekki verður tekist á við nema með samvinnu og sjálfbærni að leiðarljósi. Á þessum stefjum byggist formennska Íslands.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.