Handbolti

Patrekur: Auðvitað getum við unnið titilinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Patrekur Jóhannesson tapaði í oddaleik í undanúrslitum í fyrra en sópaði seríunni í ár.
Patrekur Jóhannesson tapaði í oddaleik í undanúrslitum í fyrra en sópaði seríunni í ár. mynd/stöð 2 sport
Selfoss komst í gær í lokaúrslit Olís-deildar karla í handbolta með 29-26 sigri á Val í þriðja leik liðanna í Hleðsluhöllinni á Selfossi en Selfyssingar sópuðu seríunni, 3-0.

Selfoss-liðið spilaði frábærlega í gær og hélt Valsmönnum í fyrsta sinn í rimmunni undir 30 mörkum en varnarleikur liðsins, sérstaklega undir lokin, var mjög góður og viljinn mikill til að klára verkefnið.

„Ef það er ekki í lagi áttu bara að hætta í handbolta. Viljinn hefur nú yfirleitt verið í lagi hjá okkur á Selfossi,“ sagði Patrekur ákveðinn í Seinni bylgjunni sem var í Hleðsluhöllinni í gær.

Selfoss vann fyrsta leikinn í framlengingu og annar leikurinn var sömuleiðis mjög spennandi.

„Það má ekkert taka af Valsliðinu sem var fjórum mörkum yfir í fyrsta leiknum. Ef þeir hefðu unnið hann hefði þetta spilast allt öðruvísi. Mér fannst þessir leikir bara hrikalega skemmtilegir og góðir en auðvitað er ég ánægður með að vinna,“ sagði Patrekur, en getur Selfoss farið alla leið?

„Auðvitað!“ svaraði Patrekur um hæl. „Mann dreymir alltaf um það. Öll liðin dreymir um að vinna en ég hugsa mikið um sálfræðina í þessu og reyni bara að gíra mig og leikmennina inn á hvert verkefni,“ sagði Patrekur Jóhannesson.

Allt spjallið má sjá í spilaranum hér að neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×