Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Valur 29-26 | Sópurinn á lofti og Selfoss í úrslit

Arnar Helgi Magnússon skrifar
Það verða átök í Hleðsluhöllinni í kvöld.
Það verða átök í Hleðsluhöllinni í kvöld. vísir/bára
Selfyssingar tryggðu sér í kvöld farseðil í úrslitaeingvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta eftir 29-26 sigur á Val. Fyrir leikinn leiddu Selfyssingar einvígið 2-0 og það þurfti því bara einn sigur í viðbót.

 

Hleðsluhöllin hefur líklega aldrei verið jafn þétt setin og lætin í húsinu voru eftir því.  Stuðningsmannasveitir beggja liða tókust á í stúkunni og fólk skemmti sér konunglega, þó aðallega Selfyssingar þegar lokaflautið gall.

 

Leikurinn byrjaði af krafti og náðu Selfyssingar strax tveggja marka forskoti. Það tók gestina ekki langan tíma að jafna og skiptust liðin á að hafa forystu í fyrri hálfleiknum. Heimamenn náðu góðu áhlaupi þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik og þegar liðin gengu til búningsklefa eftir þrjátíu mínútur var staðan 17-14, Selfyssinga í vil.

 

Selfyssingar byrjuðu síðari hálfleikinn af sama krafti og þeir enduðu þann fyrri. Héldu forskotinu og náðu mest fimm marka mun.

 

Varnarleikur Selfyssinga var til fyrirmyndar og komust sóknarmenn Vals hvorki lönd né strönd, og það virtist fara eitthvað í skapið á þeim. Selfyssingar hafa verið þekktir fyrir það að spila leiki sem að vinnast á einu marki.

 

Það var breyting á því í kvöld. Selfyssingar spiluðu agaðan varnar- og sóknarleik síðustu mínúturnar og uppskáru að lokum þriggja marka sigur, 29-26. Sópurinn var því á lofti í Hleðsluhöllinni og Selfoss er komið í úrslitaeinvígið.

 

Afhverju vann Selfoss?

Valsmenn virtust missa trúnna á verkefninu þegar um það bil tíu mínútur voru eftir af leiknum á meðan Selfyssingar héldu dampi og kláruðu þetta verkefni faglega.

 

Hvað gekk illa?

Á tímabili í síðari hálfleik gekk ekkert hjá Valsmönnum á meðan allt var inni hjá Selfyssingum. Valsmenn klúðruðu mörgum dauðafærum, hittu ekki í opið markið og tæknifeilarnir voru orðnir ansi margir.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Hergeir Grímsson var magnaður í liði Selfyssinga í dag. Skoraði fimm mörk úr sjö skotum ásamt því að vera með ellefu löglegar stöðvanir. Sinnir vinnu sem að ekki allir taka eftir. Elvar Örn Jónsson var með sín sex mörk.

 

Hjá Valsmönnum Anton Rúnarsson markahæstur með átta mörk en Ýmir Örn gerði sjö mörk úr jafn mörgum tilraunum.

 

Hvað gerist næst?

Selfoss mætir annaðhvort Haukum eða ÍBV í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. Haukar leiða það einvígi 2-1 en fjórði leikurinn fer fram í Eyjum á miðvikudag klukkan 18:30.

vísir/bára
Haukur: Geggjað að klára þetta í okkar húsi

Það var bara geggjað að fá að klára þetta í okkar húsi,“ sagði Haukur Þrastarson, leikmaður Selfoss, eftir sigurinn á Val í kvöld.

 

„Þetta voru allt 50/50 leikir og hefðu allir getað dottið hvoru megin sem var. Sem betur fer datt þetta okkar megin. Valsararnir eru með hörkulið og þetta var mjög erfið sería þó að hún hafi farið 3-0.“

 

Selfyssingar náðu góðri forystu í síðari hálfleik og var Haukur ánægður með að liðið hafi náð að halda þeirri forystu.

 

 „Við höfum verið svolítið í því að glutra niður forskoti þegar við erum komnir með það. Ég var virkilega ánægður með það að við höfum náð að halda þessi forskoti allt til enda.“

 

Íslandsmeistaratitillinn er kominn í augnsýn og þangað ætlar Selfoss, að sögn Hauks.

 

„Við erum komnir þangað sem við viljum vera. Við stefnum að sjálfsögðu á Íslandsmeistaratitilinn.“

 

Haukur bætti því að lokum við að honum væri alveg sama hvort að Selfoss myndi mæta Haukum eða ÍBV í úrslitaeinvíginu.

Snorri Steinn.vísir/bára
Snorri: Eru 3-0 betri en við

„Ég er mjög svekktur, þetta eru vonbrigði,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, annar þjálfara Vals eftir tapið á Selfossi í kvöld.„Mér fannst drengirnir flottir og þeir lögðu allt í þetta, allt sem þeir áttu. Við verðum bara að viðurkenna það að Selfoss var betra í þessu einvígi.“

 

„Úrslitin ljúga ekkert, við getum ekkert verið að halda einhvejru öðru fram. Þó að okkur finnist við vera góðir þá erum við klárlega ekki betri en Selfoss. Þeir unnu okkur 3-0 og þá eru þeir 3-0 betri en við.“

 

Valsmenn fengu á sig mikið af mörkum í einvíginu og segir Snorri að varnarleikurinn hafi ekki verið nægilega góður.

 

„Okkar stoð er varnarleikurinn en við erum að fá á okkur mikið af mörkum, fleiri en við erum vanir. Serían fer kannski ekkert í þessum leik hér í kvöld en fyrsti leikurinn hér á Selfossi situr mikið í mér. Þar vorum við með pálmann í höndunum til þess að taka yfirhöndina í þessu einvígi.“

 

Snorri bætti við að að Valsmenn hafi engan vegið náð markmiðum sínum á þessu tímabili en  hvert er framhaldið hjá Valsmönnum?

 

„Ég var að detta úr keppni. Ég var með hugann við leikinn á fimmtudag en hann verður því miður ekki,“ sagði Snorri að lokum.

Róbert: Ég hefði ekkert hatað að hafa úrslitakeppnis-Agga

„Mér líður bara illa.“ sagði Róbert Aron Hostert, leikmaður Vals, eftir tapið á Selfossi í kvöld.

 

„Við ætluðum okkur stóra hluti í vetur. Þetta er bara ömurlegt. Ég hefði ekkert hatað að hafa úrslitakeppnis-Agga og Magga með okkur. Þetta eru engar afsakanir, Selfyssingar voru bara betri. Ég er bara þreyttur og sár.“

 

Róbert segir að Valur hafi spilað sinn slakasta leik í einvíginu á Selfossi í kvöld.

 

„Já, alveg klárlega. Við vorum bara spurningir í löppunum og það var bara minna flæði. Enn og aftur erum við mikið einum og tveimur færri, þetta er eitthvað sem er ekki boðlegt. Þetta er dýrt.“

 

Markmið Vals var að gera miklu stærri hluti í vetur, segir Róbert.

 

„Markmiðið voru stórir hlutir. Við lendum í miklum áföllum og það má ekki gleyma því, það tikkar alveg inn. Þetta eru vonbrigði, við ætluðum okkur stóra hluti. Við þurfum að læra af þessu.

 

„Ég vona að við mætum tvíefldir til leiks á næsta tímabili,“ sagði Róbert að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.