Körfubolti

Baldur: Hún bjó mig til og styður mig í því sem ég geri

Anton Ingi Leifsson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson, nýráðinn þjálfari Tindastóls, segir að liðið þurfi að styrkja sig og búa til sterka liðsheild ætli liðið sér þann stóra á næstu leiktíð.

Baldur skrifaði undir þriggja ára samning við Tindastól í gær eftir að hafa gert frábæra hluti með Þór Þorlákshöfn á síðustu leiktíð.

„Þeir vilja alltaf árangur. Við þurfum að búa til ákveðna menningu og við þurfum að vinna vinnuna,“ sagði Baldur Þór í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Við þurfum að leggja meira á okkur en hinir og vera sterkari á svellinu í hugarfari, æfingum og fleira. Við þurfum að gera litlu hlutina betur en aðrir.“

Baldur segir það klárt að Stólarnir þurfi að þétta raðirnar fyrir næsta tímabil en einhverjar breytingar hafa nú þegar orðið á liðinu.

„Við þurfum að styrkja okkur. Það eru breytingar á liðinu. Við förum í það núna og höfum maí, júlí og júní til þess að gera það. Við munum skoða þessa hluti vel.“

Stólarnir hafa lagt mikið í liðið undanfarin ár en ekki náð að landa þeim stjóra, sjálfum Íslandsmeistaratitlinum. En hvað þarf til?

„Það þurfa allir að vinna að sama markmiðinu. Það þarf að vera sterk liðsheild og það þarf að leggja meira á sig en allir aðrir. Það þarf að búa til menningu til að ná árangri og við þurfum að vinna þá vinnu.“

„Þetta gerist ekkert öðruvísi en þú vinnir meiri vinnu en hin liðin. Það mun skila sér á endanum, hvenær það skilar sér veit enginn en þú verður að vinna þessa vinnu til að ná árangri.“

Mamma Baldurs, Jóhanna Hjartardóttir, hefur verið formaður körfuknattsleikdeildar Þór Þorlákshafnar undanfarin ár og Baldur segir að það sé erfitt að kveðja Þorlákshöfn.

„Hún bjó mig til og styður mig í því sem ég geri. Hún er alltaf ánægð með mig og er mamma mín númer eitt,“ sagði Baldur hress.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×