Bíó og sjónvarp

Game of Thrones: Lognið á undan storminum

Samúel Karl Ólason skrifar
Allt að verða vitlaust í norðrinu.
Allt að verða vitlaust í norðrinu. Mynd/HBO
Hér að neðan verður farið yfir vendingar í öðrum þætti áttundu þáttaraðar Game of Thrones. Þið vitið hvað það þýðir. Ef þið eigið eftir að horfa; Ekki lesa. Ef þið ætlið ekki að horfa er ykkur velkomið að lesa það sem ykkur sýnist. Vinsamlegast hættið samt að garga það af húsþökum að þið hafið ekki horft á þættina.

Eðli málsins samkvæmt er textinn hér að neðan löðrandi í spennuspillum og annars konar leiðindum.

Síðasti séns.



Í fyrstu var ég ekki alveg viss um hvað mér fannst um þennan þátt. Mér fannst hann hægur, þar til ég hugsaði aðeins út í það og komst að þeirri niðurstöðu að Game of Thrones hafa alltaf verið hægir. Sögunni er fleytt áfram í hröðum kippum af og til. Við fengum að sjá persónurnar sem við höfum fylgst með um áraraðir, sumir mun lengur en aðrir, undirbúa sig fyrir vissan dauða og ræða saman í síðasta sinn, í einhverjum tilfellum.

Þessi þáttur var um persónurnar en ekki söguna. Ég ætla að ganga svo langt að segja að þetta hafi verið hjartnæmur þáttur. Sérstaklega þegar Brienne of Tarth var gerð að riddara af Jaime Lannister, enda ber þátturinn titilinn „Riddari konungsríkjanna sjö“.

Þó þátturinn hafi í raun verið um undirbúninginn fyrir orrustuna gegn hinum dauðu sáum við lítið sem ekkert af undirbúningi fyrir orrustuna gegn hinum dauðu. Það var þó töluvert sem við sáum í bakgrunni sem varpar ljósi á hvað þau ætla að gera. Svo sögðu þau einmitt líka hvað þau ætla að gera. Það hjálpar aðeins til.

Við fengum loksins að sjá Ghost, sem stóð eins og stytta í einu stuttu atriði. Hann virtist uppstoppaður og ég er satt að segja ekki sáttur. Illa farið með góðan úlf. Hann fékk ekki að rífa andlitið af neinum og það var ekki einu sinni reynt að útskýra hvar hann hefur verið. Við eigum bara að trúa því að hann hafi alltaf staðið rétt fyrir utan skotið.

Þá fengum við loksins áhugaverðar og góðar upplýsingar um Næturkonunginn og hvað hann vill gera og ýmislegt fleira.

Jaime lifir, í bili

En snúum okkur að þættinum, sem byrjaði nánast nákvæmlega þar sem sá síðasti endaði. Daenerys virtist langa mjög mikið að láta Drogon éta Jaime en fékk ekki tækifæri til þess. Sansa treysti á Brienne, sem fullyrti að Jaime ætlaði ekki að gera einhvern óskunda og Jon/Aegon, sagði, eðlilega, að ekki væri hægt að vísa mönnum frá komandi orrustu.

Jaime lifir því áfram, í bili. Ég hefði þó viljað að hann segði frá því af hverju hann drap Aerys Targaryen hinn óða. Fólk á að vita að hann sé ekki bara drullusokkur.

Ég segi „í bili“ því ég hugsaði: „ohh, hann/hún mun deyja“ um líklegast allar persónur þáttanna á einhverjum tímapunkti þegar ég horfði á þáttinn. Það virtust allir svo skringilega sáttir og rólegir. Það má enginn vera sáttur í Game of Thrones. Þannig eru bara reglurnar.

Það er mér óskiljanlegt af hverju allir voru svona hissa á því að Cersei væri ekki á leiðinni með herinn sinn. Í fyrsta lagi hefðu þau getað spurt Bran/þríeygða hrafninn hvað væri að gerast í suðrinu og í öðru lagi þá á auðvitað ekki að taka tussuna Cersei trúanlega fyrir neinu.

Jon virtist verulega feiminn við frænku sína og forðaðist hana en það var svo sem skiljanlegt. Komum að því síðar.

Fyrst við erum að tala um frænkur, af hverju eru börn í norðrinu svona rosalega rasísk?

Jaime staðfesti að Cersei væri ólétt. Samt var hún að drekka vín um daginn og gera það við Euron Greyjoy, sem sá ekkert á henni. Þetta er allt saman rosalega undarlegt og ég skil ekkert hvað er í gangi. Það eina sem ég tel mig vita er að hún mun ekki eiga þetta barn.

Þegar ég hugsa um það þá staðfesti Jaime kannski eingöngu að Cersei hefði líka platað hann. Það væri alveg eftir henni. Að spila með eina gaurinn í öllum heiminum sem hatar hana ekki.

Vill Sansa verða drottning?

Ser Jorah kom Tyrion, sem hefur verið að skíta upp á bak við hvert tækifæri að undanförnu, til varnar og sagði að Daenerys ætti ekki að reka hann. Sem var krúttlegt. Hann ráðlagði henni einnig að reyna að sættast við Sönsu Stark/Lannister/Bolton, sem hún reyndi. Samtal þeirra byrjaði voða vel og virtist allt stefna í flotta sátt á milli þeirra. Þar til Sansa spurði hvað yrði um norðrið ef Daenerys tekur konungsríkin sjö.

Hvað vill Sansa? Vill hún verða drottning yfir norðrinu? Hún virtist í það minnsta ekki tilbúin til að sætta sig við að heyra undir Daenerys.

Það er ef til vill skiljanlegt að hún eigi erfitt með að lúta stjórn annarra. Hún hefur gengið í gegnum ýmislegt og hún var í raun leikfang annarra um árabil. Nú vill hún vera eigin frú. Svo virðist allavega vera.

Theon Greyjoy sneri aftur til Winterfell. Eftir síðasta þátt, þegar hann bjargaði Yöru systur sinni og sagði henni að hann vildi fara til Winterfell og berjast þar, skoðaði ég kort af Westeros. Theon hefur þurft að sigla frá Kings Landing til White Harbour og fara landleiðina þaðan til Winterfell. Samt var hann á undan Tormund og Eddison Tollett til Winterfell. Þeir þurftu bara að ríða frá Last Hearth til Winterfell, sem er álíka löng leið og frá White Harbour til Winterfell. Þetta heldur bara ekki vatni.

Ég veit. Forsvarsmenn Game of Thrones hafa sagt að atriði þáttanna séu ekki endilega í tímaröð, ég veit það, en þetta stuðar mig samt alltaf.

Eftir að þeir fóru fram úr bókum George RR Martin hefur tímalína þáttanna verið algerlega í ruglinu.

Nóg um það. Það var gaman að sjá Sönsu og Theon hittast aftur. Hann hefur gert Stark-fjölskyldunni mikið í gegnum tíðina en þau fóru saman í gegnum pyntingar Ramsay Bolton og á endanum hjálpaði Theon Sönsu að flýja til Castle Black. Mér fannst samt áhugavert að hann virtist lúta undir Sönsu, þó hann og systir hans Yara hafi áður lýst yfir hollustu við Daenerys. Það kom einhver svipur á drottninguna og ég er ekki viss um að hún hafi verið sátt við þetta.

Arya ræddi við Gendry og fékk spjótið hans (tíhí) og rúmlega það. Hún byrjaði á að sýna honum að hún er orðin mjög góð í að kasta rýtingum. Ég vorkenndi þó gaurnum sem stóð við súluna sem hún var að kasta í alveg rosalega mikið. Hann var gjörsamlega að gera ekki neitt af sér þegar hún byrjar bara að kasta rýtingum tíu sentímetrum frá hausnum á honum. Arya er bara dóni. Það er ekkert flóknara en það.

Atriðið þegar þau gerðu það við hvort annað var stórundarlegt. Í fyrstu allavega. Arya gekk svolítið harkalega á Gendry greyið og fékk upp úr honum að hann hefði verið með þremur stúlkum áður, plús Melisandre, en það telst varla með þar sem blóðsugur voru með í spilinu.

Maise Williams ræddi þetta atriði við Entertainment Weekly og hún sagði þetta hafa verið merkilega stund fyrir Aryu. Í mörg ár hafi hún eingöngu hugsað um að lifa af en þarna hafi hún nokkurn veginn sætt sig við það að hún muni deyja. Því hafi hún tekið þá ákvörðun að strika ákveðið atriði af nýjum lista.

Þetta virkaði þó undarlega þar sem hingað til hefur Arya ekki sýnt að hún sé mikil kynvera. Þegar ég hitti leikara GOT í London í febrúar sagðist Maise Williams alltaf hafa séð Ayru fyrir sér sem eikynhneigða (asexual). Við erum þó öll mennsk.

Arya var þó ekki bara að stríða Gendry með því að spyrja hann út í aðrar stúlkur. Hún vildi ganga úr skugga um að hann vissi hvað hann væri að gera. Með tilliti til þess hefði líklega verið sniðugara fyrir hana að heimsækja Pod. Hann virðist vita hvað hann er að gera.

Mér fannst áhugavert í fyrsta þætti þegar Sansa spurði hvernig þau ættu að fæða alla hermennina og allt fólkið sem er nú í Winterfell. Síðan þá virðist sem að mun fleiri flóttamenn hafi komið til Winterfell. Þeirri spurningu hennar Sönsu hefur ekki verið svarað.

Davos Seaworth var þó að gefa nokkrum flóttamönnum súpu og í staðinn þurftu þeir að bera vopn gegn hinum dauðu. Þannig að allir sem vettlingi geta valdið eru látnir fá vopn. Þau virðast allavega eiga nóg af Dragonglass til að vopna alla.

Næturkonungurinn er bara dick

Áður en við skoðum hvernig þau ætla að undibúa orrustuna er vert að spá í það sem Bran sagði um Næturkonunginn. Hann sagði að NK myndi gefa færi á sér við það að reyna að drepa Bran.

„Hann mun eltast við mig. Hann hefur reynt áður. Mörgum sinnum með marga þríeygða hrafna,“ sagði Bran.

Samwell var fyrstur manna til að spyrja Bran hvað Næturkonungurinn vildi í rauninni. Það er gjörsamlega fáránlegt að hann hafi ekki verið spurður að þessu áður.

Bran sagði NK vilja „endalausa nótt“. „Hann vill gereyða þessum heimi og ég er minni heimsins,“ sagði Bran. Sem Þríeygður hrafn býr Bran yfir vitneskju um allt sem hefur nokkurn tímann gerst í heiminum og það sem er að gerast á hverju tilteknu augnabliki.

Það er ýmislegt í þessu. Bran er eiginlega að segja að Næturkonungurinn hafi ekkert annað verkefni en að reyna að drepa allt og alla. 

Þá sagði Bran frá því að NK hefði merkt hann og vissi því alltaf hvar hann væri, sem hann gerði í sjöttu þáttaröð. Það leiddi til dauða Barna skógarins og Hodor.

Þá komum við að því hvernig þau ætla að berjast gegn her Næturkonungsins.

Jon er sannfærður um að þau muni ekki ráða við herinn, því verði þau að drepa Næturkonunginn. Það sé eina leiðin til að vinna en eins og þeir sýndu í síðustu þáttaröð, þá endur-deyja hinir dauðu þegar sá Hvítgengill sem breytti þeim í uppvakninga er felldur. Það sást þegar Jon drap Hvítgengilinn þegar hann og félagar hans fóru norður til að gefa Næturkonunginum dreka.

Bran lagði því til að hann yrði notaður sem beita. Hann myndi koma sér fyrir í guðaskóginum, hjá stóra hvíta trénu með rauðu laufin, og bíða eftir honum.

Virkar eldur á Næturkonungin? Niii

Þegar/Ef Næturkonungurinn bítur á agnið munum við að öllum líkindum sjá smá drekaorrustu. Sem er klikkað. Drogon og Rhaegal þurfa að endur-drepa litla bróðir þeirra og þau ætla sér að reyna að drepa NK með drekaeldi. Gallinn við það er að enginn veit hvort það virkar.

Við höfum nokkrum sinnum séð Hvítgengla ganga í gegnum eld og hann slökknar alltaf þegar þeir nálgast hann. Drekaeldur gæti kannski virkað. Drekastál og drekagler virkar gegn þeim. Af hverju ekki drekaeldur?

Af því að þetta er Game of Thrones! Þess vegna mun þetta ekki virka og fullt af fólki mun drepast. Hananú.

Hér að neðan sjáum við hvernig þau ætla að raða herjum sínum upp fyrir orrustuna.  Vinstra megin eru riddarar The Vale og norðanmennirnir. Brienne leiðir þann hluta hersins. Ég held að Jorah Mormont leiði miðjuna. Þar eru Dothraki og Unsullied. Ég er ekki viss um hver leiðir hægri fylkinguna, þar sem sveitir Winterfell eru.

Miðað við þessa mynd á Jaime Lannister að halda til í kastala Winterfell og gera ekki neitt.

Takið eftir því að þarna sjáum við einnig skurðinn sem búið er að grafa í kringum Winterfell. Þar er búið að koma fyrir dragonglass göddum og Tyrion sagði að til stæði að kveikja í skurðinum. Bæði dragonglass og eldur virkar gegn hinum dauðu.

Við sáum hermenn bera kassa af örvum með dragonglassodda að virkisveggnum og hermenn útbúa vegatálma með dragonglass göddum.

Áætlunin er greinilega að mæta hinum dauðu fyrir utan veggi Winterfell, saxa þá aðeins niður og hörfa svo inn í virkið, kveikja í skurðinum og verjast á veggjunum.

Það var einnig búið að koma fyrir dragonglass göddum á virkisveggjum Winterfell. Það er sniðugt en vekur samt ákveðnar spurningar varðandi hve góðir hinir dauðu eru í að klifra.

Til dæmis um það má benda á árás Hvítgenglanna á helli Barna skógarins, þar sem Hodor og fleiri dóu. Þá klifruðu hinir dauðu í lofti hellisins. Nánast hlupu þar um eins og maurar.

Það virtust þeir þó ekki geta í orrustunni um Hardhome, þar sem lítill veggur gat haldið aftur af þeim.

Spurningin er hversu góðir verða þeir að klifra í næsta þætti? Munu þeir geta komist upp veggi Winterfell eins og ekkert sé? Ef þeir geta það verður það eflaust pirrandi fyrir þá sem eiga að verja þá veggi.

Davos sagði að drekarnir myndu hjálpa til við að sigra herinn en Jon tók það ekki í mál og sagði að þeir þyrftu að vernda Bran. „Við þurfum að vera nærri honum,“ sagði hann. „Ekki of nálægt því þá kemur Næturkonungurinn ekki en nógu nærri til að elta hann þegar hann kemur.“

Jon er búinn að taka einn rúnt á Rhaegal og nú er hann að fara að berjast á baki hans. Það er töff en meikar ekki alveg sens.

Tormund tókst þó að fanga stemninguna fullkomlega.

Eftir að Missandei varð fyrir barðinu á rasistunum sem minnst er á hérna að ofan kom ofurmennið Grey Worm henni til bjargar. Hann sagði það sem ætti að vera öllum ljóst. Þegar stríðið er búið og ef þau eru ekki dauð, munu þau ekki eiga sér samastað í Westeros. Sem er líklegast rétt.

Missandei sagðist vilja fara aftur heim til Naath.

Naath er hitabeltiseyja suður af rústum Valyria og er oft lýst sem mikilli paradís. Fyrir utan þá staðreynd að þrælasalar herja reglulega á eyjuna og íbúa hennar, sem eru einstaklega friðsamir og tilbiðja fiðrildi. Grey Worm gaf í skyn að aðrir unsullied kæmu með þeim, jafnvel allir, og þeir myndu verja íbúana.

Ef þetta er ekki efni í nýja GOT-þáttaröð, þá veit ég ekki hvað. Þúsundir herskárra geldinga flytja til hitabeltiseyju þar sem íbúar eru friðarsinnar. Ég sé þetta fyrir mér sem rómantíska þætti með grín-ívafi. Þetta gæti orðið æðislegt.

Þessi þáttur snerist ekki mikið um sögu Game of Thrones í heildina heldur um persónurnar og það verður að hafa það í huga. Persónur GOT gáfu okkur mikið í þessum þætti og þar voru Tormund og Brienne allra best.

Eitt það fyrsta sem Tormund sagði þegar hann kom til Winterfell var að spyrja hvort Brienne væri ekki örugglega enn á svæðinu. Hann leitaði líka til hennar þegar það tók að kvölda og gekk aðeins á hana. Tormund var þó fljótur að átta sig á því að hann á í smá samkeppni við Jaime og ákvað því að segja einstaklega rómantíska sögu og monta sig af styrk sínum um leið.

Jaime stóð sig þó eins og hetja í slagnum um Brienne. Hann rústaði eiginlega risatúttumjólkursögunni hans Tormund með því að slá hana til riddara.

Hún lét í fyrstu sem að hún sóttist ekki eftir því að verða riddari og það var magnað að sjá hve auðveldlega Podrick sá í gegnum það.

„Arise Brienne of Tharth. A knight of the seven kingdoms.“ Búmm.

Þetta atriði og titill þáttarins: A Knight of the Seven Kingdoms, er tilvísun í bækur George RR Martin um þá Dunk og Egg. Þær sögur gerast um 90 árum fyrir Game of Thrones og fjalla um Aegon V Targaryen og Ser Duncan the Tall. Sá síðarnefndi er forfaðir Brienne.

Ég saknaði Hundsins í þessum þætti, þar sem við fengum að sjá einkar lítið af honum. Það sem við sáum var þó frábært.

Snúum okkur þá að mikilvægari hlutum. Jon/Aegon sagði Daenerys frænku sinni loksins frá því hver hann væri í rauninni. Það var magnað atriði.

Daenerys átti erfitt með að trúa þessu. Sérstaklega með tilliti til þess að upplýsingarnar koma frá bróður Jon og besta vini hans. Hún virtist þó bara vera að leita að einhverju til að segja, því það sem hún var að hugsa var:

„Shit. Hann á betri kröfu á krúnuna en ég!“

Sifjaspell er titlingaskítur

Það hljómar ef til vill undarlega að það sé það fyrsta sem hún hugsi þegar Daenerys kemst að því að hún er búin að vera að sofa hjá og elskar frænda sinn. Það er það samt ekki, að mínu mati.

Varðandi sifjaspellið ólst Daenerys upp í þeirri trú að hún myndi á endanum giftast Viserys, eldri bróður sínum, og ala börn hans. Hann var reyndar drullusokkur og var myrtur á stórkostlegan hátt af Khal Drogo, þáverandi eiginmanni Daenerys. Targaryen fjölskyldan hefur verið að stunda sifjaspell í hundruð ára. Sifjaspell er titlingaskítur fyrir Daenerys.

Allur hennar persónuleiki snýst um það að hún sé réttmætur leiðtogi Westeros. Hún er drottning og hefur unnið að því í mörg ár að verða drottning Westeros. Þess vegna hugsaði hún fyrst út í það að þessi drullusokkur gæti stolið af henni krúnunni.

Það eina sem Jon þurfti samt að segja var: „Ég hef engan áhuga á því“ og málið hefði verið dautt. Hinir dauðu trufluðu þau samt.

Mér finnst samt smá skrítið að Daenerys taki því ekki fagnandi að hún sé ekki lengur eini meðlimur Targaryen ættarinnar. Það ætti að vera fagnaðarerindi. Það var hins vegar ekki tími til að taka þetta lengra, sem var óþolandi.

Skömmu áður hafði Podrick „Töfratyppi“ Payne sungið lagið Jenny's Song á einstaklega fallegan hátt. Er ekkert sem Pod getur ekki gert?

Lag þetta á rætur í bókum GRRM þó einungis fyrsta lína þess hafi komið fram þar. Arya heyrir lagið þar sem hún er með Brotherhood Without Banners í High Heart í A Storm of Swords (Annarri bókinni). Þar biður stutt gömul kona sem kallast Ghost of High Heart um að heyra lagið og kallar hún það „my Jenny's song“.

Jenny og Prinsinn

Polygon hefur tekið saman hvernig lagið tengist mögulega spádómnum um The Prince Who Was Promised. Jenny Oldstones var sum sé kona sem var ástfangin af prinsinum Duncan Targaryen og hann af henni. Aegon, faðir Duncan, vildi ekkert með Jenny hafa og reyndi að slíta þau í sundur. Duncan afsalaði sér þó krúnunni svo hann gæti verið giftur Jenny.

Jenny átti vinkonu, sem var annaðhvort dvergur eða jafnvel ein af Börnum skógarins. Hún var líka norn, eins og gengur og gerist. Talið er að nornin hennar Jenny og Ghost of High Heart séu sama manneskjan.

Duncan, Jenny og margir aðrir dóu þó í harmleiknum í Summerhall, þegar kastalinn sprakk í loft upp í misheppnaðri tilraun Aegon til að vekja dreka upp frá dauðum. Nornin lifði þó líklega.

Hún er merkileg fyrir þær sakir því hún spáði því að umræddur Prins, myndi koma frá blóðlínu þeirra Aerys og Rhaella Targaryen. Þau voru foreldrar Daenerys og Rhaegar, föður Jon/Aegon. Þar að auki liggur ekki fyrir hver samdi lagið en vinsælasta kenningin er sú að Rhaegar, faðir Jon/Aegon, hafi samið það.

Rhaegar var sannfærður um að hann eða eitt barna hans yrði umræddur Prins.

Það fyrsta sem við sjáum eftir að laginu líkur er Jon/Aegon að segja Daenerys frá því hverjir foreldrar hans eru. Steinliggur þetta ekki? Það er að segja að Jon/Aegon sé þessi tiltekni prins?

Punktar og vangaveltur

-Upprifjunin og uppbyggingin er búin. Nú er komið að þessu sjitt. Næsti þáttur verður 82 mínútur að lengd, fjórði verður 78, fimmti 79 og sá sjötti verður 79 mínútur. Þvílíkur lúxus sem næstu sunnudagskvöld verða.

Orrustan í næsta þætti var tekin upp yfir ellefu vikna tímabil þar sem tökur fóru eingöngu fram að nóttu til. Forsvarsmenn GOT hafa lofað stærsta og umfangsmesta orrustuatriði í sjónvarps- og kvikmyndasögunni.

-Djöfull held ég að mörg þeirra séu að fara að deyja. Það virtust allir svo sáttir við lífið eitthvað. Of sáttir.

Samwell er alltaf að fara að drepast. Hann lét Jorah fá Heartsbane, sverð Tarly fjölskyldunnar úr valíríustáli, sem er ekkert vitlaust miðað við að Jorah getur beitt því mun betur. Það var hins vegar eitthvað í því sem hann sagði og hvernig. 

-Tussan Cersei sást ekkert í þessum þætti. Halalúja. Samt ekki. Ég hef verið að spá í hvað það þýðir fyrir framhaldið, því hún verður varla mikið í næsta þætti heldur. Ég hef þó ekki komist að neinni niðurstöðu sem heldur vatni.

-Hvar er Melisandre? Jon og Davos ráku hana á brott en hún sagðist ætla að koma aftur til að deyja í Westeros. Hún sagði reyndar að Varys myndi deyja líka. Hún hefur samt ekki sést enn. Jóli vinur minn giskar á að hún muni vera í hlutverki Gandálfs í orrustunni í næsta þætti og mæta óvænt með liðsauka þegar útlitið er orðið slæmt fyrir verjendur Winterfell.

Ég er ekki viss.

-Hversu æðisleg er Lyanna Mormont? Mjög. Hún er mjög æðisleg.

-Stefnir í einhverja alvarlega deilu á milli Daenerys annarsvegar og Sönsu hins vegar? Ef svo er, með hverjum verður Jon/Aegon í liði? Lávarðar norðursins vita ekki enn sannleikann um foreldra hans. Munu þeir vilja eitthvað með Jon hafa? 

-Hvenær mætir Bronn til Winterfell og mun hann reyna að drepa Tyrion og Jaime? Það að hann hafi ekki birst í Winterfell fyrir orrustuna, finnst mér gefa til kynna að þeir bræður muni báðir lifa af.

-Ef engin af þeim deyr, hvernig endar þessi barátta um Brienne? Ég er sérstaklega mikill aðdáandi þess að Tormund og Brienne endi saman en mér finnst það einstaklega ólíklegt. Jaime þarf líka að losna undan systur sinni, og drepa hana auðvitað, til að geta verið hamingjusamur. Hann þarf þó ekkert að enda með Brienne til þess.

-Á meðan ég man, þetta mynstur sem Hvítgenglarnir eru alltaf að teikna úr líkum, það táknar ekkert sérstakt. Einhver rithöfundur þáttanna sagði Hvítgenglana hafa tekið það af börnunum og nota það í einhverskonar hæðni. Eins og djöfullinn notar kross á hvolfi. Það var ekki flóknara en það.

-Ef hinir dauðu eru að fara að koma verjendum Winterfell á óvart með einhverjum hætti, með því að grafa göng eða eitthvað slíkt, þá verð ég brjálaður. Með Bran á móti sér eiga þeir ekki að geta komið neinum á óvart. Það er enn ekki verið að nota hann nægilega mikið.

Til dæmis um það; af hverju þurftu Tormund og Eddison að segja Jon/Aegon hvenær von væri á hinum dauðu og að Last Hearth væri fallið? Af hverju í helvítinu var Bran ekki búinn að segja fólki frá því?

-Ég hefði verið mjög mikið til í það að sjá samtalið á milli Bran og Tyrion þar sem Tyrion var að spyrja Bran út í allt sem hefði komið fyrir hann. Því var sleppt en það er til marks um að Tyrion sé ekki orðið algjört fífl að hann hafði vit á því að tala við Bran.

-Ef Grey Worm, hinir Unsullied og Missandei ætla að yfirgefa Westeros, hvað verður þá um Dothraki? Munu þeir bara fara líka og allt í gúddi? Það finnst mér eitthvað hæpið.

-Mér finnst ég vera að gleyma einhverju.

Þá komum við að hinum vikulega haug af myndböndum. Í fyrsta myndbandinu fjalla þeir DB Weiss og David Benioff um hvað persónur GOT voru að hugsa í tilteknum atriðum. Mjög svo áhugavert og veitir manni betri innsýn í persónurnar.

Næsta myndband er tiltölulega langt en það er einfaldlega magnað. Það sýnir vel hversu stórt fyrirbæri Game of Thrones er orðið. Til dæmis sjáum við að þau byggðu eiginlega nýtt Winterfell í heilu lagi. Frá því í fyrstu þáttaröð hefur settið stækkað úr einum garði í stærðarinnar kastala.

Þar er líka hægt að fara inn í byggingar og taka upp þar, eins og í stóra salnum og bókasafninu í síðasta þætti.

Horfið bara á þetta, þið hafið ekkert betra að gera.

Þá er komið að myndbandinu við lagið Jenny of Oldstones eftir Florence and the Machine. Þetta segir sig sjálft.

Við endum svo á stuttri stiklu fyrir næsta þátt, sem segir okkur lítið sem ekkert. Annað en að þetta verður rosalegur þáttur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×