Viðskipti innlent

Arion sendir frá sér afkomuviðvörun vegna Valitor-dóms

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Valitor er í söluferli.
Valitor er í söluferli. Fréttablaðið/Eyþór
Arion banki hefur sent frá sér afkomuviðvörun eftir að dómur féll í máli Sunshine Press og Datacell gegn Valitor, sem er í eigu bankans.

Greiðslukortafyrirtækið Valitor var í dag dæmt til að greiða Datacell og Sunshine Press, rekstrarfélagi Wikileaks, samanlagt 1,2 milljarð króna í bætur vegna ólögmætrar riftunar Valitors á samningi um greiðslugátt fyrir söfnunarfé til Wikileaks.

„Að fenginni niðurstöðu Héraðsdóms í máli gegn Valitor verða áhrif óreglulegra liða á afkomu Arion banka á fyrsta ársfjórðungi 2019 neikvæð um samtals 1,2 milljarða króna,“ að því er segir í tilkynningu frá bankanum.

„Í samstæðureikningi Arion banka er Valitor flokkað sem starfsemi til sölu. Dómurinn hefur neikvæð áhrif á afkomu samstæðu Arion banka á fyrsta ársfjórðungi 2019 sem nema um 600 milljónum króna að teknu tilliti til skattaáhrifa. Þessi dómur, gjaldþrot WOW Air og sala bankans á eignarhlut í Farice hafa samanlagt neikvæð áhrif sem nema um 1,2 milljörðum króna á afkomu fyrsta ársfjórðungs 2019,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að dómurinn muni ekki hafa áhrif á söluferli Valitor auk þess sem að áhrif dómsins á afkomu bankans séu áætluð lægri en ella vegna samkomulags sem gert var þegar Arion banki keypti eignarhlut Landsbankans í Valitor Holding hf. árið 2014 en í því voru ákvæði um hlutdeild seljanda í því tjóni sem Valitor gæti orðið fyrir í tengslum við þetta mál.

„Um óreglulega liði er að ræða sem hafa ekki áhrif á reglulegar tekjur og almennan rekstrarkostnað Arion banka og eru fjárhagsleg markmið bankans til næstu 3-5 ára óbreytt,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Niðurstaðan sætir furðu að mati Valitors

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Datacell og Sunshine Press, rekstrarfélagi Wikileaks, sætir furðu að mati Valitors. Líklegt er að fyrirtækið áfrýji niðurstöðu dómsins til Landsréttar.

Valitor dæmt til að greiða 1,2 milljarða

Greiðslukortafyrirtækið Valitor hefur verið dæmt til að greiða Datacell og Sunshine Press, rekstrarfélagi Wikileaks, samanlagt 1,2 milljarð króna í bætur vegna ólögmætrar riftunar Valitors á samningi um greiðslugátt fyrir söfnunarfé til Wikileaks.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×