Handbolti

Ísland í hópi sterkra liða sem töpuðu fyrsta landsleiknum eftir HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari Danmerkur.
Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari Danmerkur. Vísir/Getty
Ísland er ekki eina landsliðið sem tapaði sínum fyrsta leik eftir HM 2019 í Þýskalandi og Danmörku og er þar raunar í hópi með mörgum af sterkustu þjóðum heims.

Heims- og Ólympíumeistarar Danmerkur, Evrópumeistarar Spánar og ógnarsterkt lið Frakklands töpuðu öllum leikjum sínum á dögunum, rétt eins og strákarnir okkar sem máttu þola einkar svekkjandi tap fyrir Norður-Makedóníu í Laugardalshöll.

Danir og Frakkar töpuðu mjög svo óvænt fyrir andstæðingum sínum í undankeppni EM 2020. Danmörk tapaði fyrir Svartfjallalandi á útivelli, 32-31, í fyrsta leiknum eftir að nýr samningur var gerður við landsliðsþjálfarann Nicolaj Jacobsen. Frakkar lentu þá í miklum vandræðum með Portúgal og töpuðu með sex marka mun á útivelli, 33-27.

Spánn keppir ásamt Noregi, Svíþjóð og Austurríki í Eurocup, keppni liða sem þurfa ekki að vinna sér inn þátttökurétt í EM 2020. Spánverjar töpuðu þar óvænt fyrir Austurríki, 29-28, en það var fyrsti leikur síðarnefndu þjóðarinnar með nýjan landsliðsþjálfara en Patrekur Jóhannesson lét nýverið af störfum með austurríska liðið.

Ísland mætir Norður-Makedóníu ytra á sunnudag og mun með sigri koma sér góða stöðu í baráttunni um sæti á EM 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×