Erlent

Mislingatilfelli þrefalt fleiri en í fyrra

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Alls var tilkynnt um 112.163 mislingatilfelli í 170 ríkjum til WHO á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Í fyrra var sú tala 28.124 í 163 ríkjum.
Alls var tilkynnt um 112.163 mislingatilfelli í 170 ríkjum til WHO á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Í fyrra var sú tala 28.124 í 163 ríkjum. AP/Seth Wenig
Mislingatilfelli á heimsvísu á fyrsta fjórðungi þessa árs voru rúmlega þrefalt fleiri en á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í gögnum og tilkynningu sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) birti í gær, þótt niðurstöðurnar séu einungis til bráðabirgða og tölfræðin gæti því breyst.Alls var tilkynnt um 112.163 mislingatilfelli í 170 ríkjum til WHO á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Í fyrra var sú tala 28.124 í 163 ríkjum. WHO telur hins vegar að tilkynnt sé um einungis eitt af hverjum tíu tilfellum og því er talan að öllum líkindum mun hærri í raun.Mislingafaraldrar geisa núna í Austur-Kongó, Eþíópíu, Georgíu, Kasakstan, Kirgistan, Madagaskar, Mjanmar, Filippseyjum, Súdan, Taílandi, Úkraínu, Bandaríkjunum, Ísrael og Túnis og er listinn ekki tæmandi.Undanfarna mánuði hefur borið á því, samkvæmt WHO, að tilfellum fjölgar ört í ríkjum þar sem hlutfall bólusettra er hátt. Þar hefur sjúkdómurinn breiðst hratt út á meðal hins óbólusetta minnihluta.Þótt mislingar séu einn mest smitandi sjúkdómur heims er hægt að fyrirbyggja smit nær alveg með tveimur skömmtum af bóluefni. Í dag hafa 85 prósent mannkyns fengið fyrsta skammtinn en samkvæmt WHO þurfa 95 prósent að vera bólusett til að fyrirbyggja faraldra. Þá hafa 67 prósent fengið skammt númer tvö. 25 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa ekki innleitt annan skammtinn í opinbera bólusetningarstefnu sína.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.