Fótbolti

Ronaldo alltaf komist áfram úr 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronaldo fagnar marki sínu í fyrri leiknum gegn Ajax.
Ronaldo fagnar marki sínu í fyrri leiknum gegn Ajax. vísir/getty
Juventus tekur á móti Ajax í seinni leik liðana í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Sá fyrri fór 1-1.

Stuðningsmenn Juventus geta yljað sér við þá tölfræði að Cristiano Ronaldo hefur aldrei fallið úr leik í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á ferlinum. Lið með Ronaldo innanborðs hafa ellefu sinnum komist áfram úr 8-liða úrslitum í ellefu tilraunum.

Portúgalinn komst þrisvar sinnum áfram úr 8-liða úrslitunum sem leikmaður Manchester United og átta sinnum sem leikmaður Real Madrid.

Ronaldo skoraði mark Juventus í fyrri leiknum gegn Ajax í Amsterdam. Ítalíumeisturunum nægir markalaust jafntefli til að komast í undanúrslit Meistaradeildarinnar.



Ronaldo hefur skorað í síðustu sex leikjum sínum í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Alls hefur hann skorað 24 mörk í 8-liða úrslitum keppninnar, 14 mörkum meira en næsti maður.





Ronaldo hefur skorað a.m.k. eitt mark í öllum einvígum í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar sem hann hefur tekið þátt í nema einu; gegn Atlético Madrid tímabilið 2014-15. Real Madrid vann einvígið samanlagt 1-0, með marki Javiers Hernández.

Ronaldo hefur fimm sinnum unnið Meistaradeildina, einu sinni með Manchester United (2008) og fjórum sinnum með Real Madrid (2014, 2016-18). Hann er markahæsti leikmaður í sögu keppninnar með 125 mörk. Fimm þeirra hafa komið á þessu tímabili.

Leikur Juventus og Ajax hefst klukkan klukkan 19:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Ronaldo í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu:

2006-07

Man. Utd. 8-3 Roma - Tvö mörk frá Ronaldo

2007-08

Man. Utd. 3-0 Roma - Eitt mark frá Ronaldo

2008-09

Man. Utd. 3-2 Porto - Eitt mark frá Ronaldo

2010-11

Real Madrid 5-0 Totenham - Tvö mörk frá Ronaldo

2011-12

Real Madrid 8-2 APOEL - Tvö mörk frá Ronaldo

2012-13

Real Madrid 5-3 Galatasary - Þrjú mörk frá Ronaldo

2013-14

Real Madrid 3-2 Dortmund - Eitt mark frá Ronaldo

2014-15

Real Madrid 1-0 Atlético Madrid - Ekkert mark frá Ronaldo

2015-16

Real Madrid 3-2 Wolfsburg - Þrjú mörk frá Ronaldo

2016-17

Real Madrid 6-3 Bayern München - Fimm mörk frá Ronaldo

2017-18

Real Madrid 4-3 Juventus - Þrjú mörk frá Ronaldo


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×