Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - ÍR 27-26 │Selfoss tók forystuna eftir spennutrylli

Arnar Helgi Magnússon skrifar
vísir/vilhelm
Það var blásið til veislu í Hleðsluhöllinni í dag þegar Selfoss tók á móti ÍR í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Olís-deildarinnar. Gleðin var við völd og stúkan í höllinni var troðfull. Bæði lið fengu flottan stuðning frá sínu fólki og launuðu liðin til baka með frábærum handboltaleik.Jafnræði var með liðunum fyrstu mínútur leiksins og skiptust liðin á að hafa forystuna. Selfyssingar náðu tveggja marka forskoti í fyrsta skipti í leiknum þegar rúmar tuttugu mínútur voru liðnar. Selfyssingar réðu lítið við Björgvin Hólmgeirsson í fyrri hálfleik og skoraði hann nánast að vild.Selfyssingar náðu síðan fjögurra marka forskoti áður en að ÍR-ingar skoruðu tvö síðustu mörkin í fyrri hálfleik og hálfleikstölurnar voru því 15-13.Heimamenn héldu forystunni eitthvað fram í síðari hálfleik áður en að áhlaup gestanna úr Breiðholti hófst. Þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum höfðu ÍR-ingar jafnað í 26-26 og því ljóst ansi spennandi lokasekúndur biðu.Patti tók leikhlé og stillti upp í kerfi. Elvar Örn Jónsson skoraði úr sókninni og kom Selfyssingum yfir. ÍR fékk boltann og þá tók Bjarni leiklé þegar tæpar tuttugu sekúndur voru eftir. Síðasta sókn ÍR leit vel út þegar Kristján Orri fékk opið færi úr hægra horninu en skaut framhjá markinu.Mikil fagnaðarlæti brutust út og niðurstaðan eins marks sigur Selfyssinga, 27-26, í frábærum handboltaleik. Áhorfendur í Hleðsluhöllinni fengu allt fyrir peninginn.

vísir/vilhelm
Afhverju vann Selfoss?

Mark Elvars Arnar skildi liðin að í dag en hann skoraði sigurmarkið þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leiknum. Bæði lið gerðu helling af mistökum, bæði varnar- og sóknarlega og nú er það þjálfaranna að laga það fyrir næsta leik liðanna á mánudagskvöld. Það sem að stendur upp úr eftir kvöldið er frábær handboltaleikur á milli tveggja sterkra liða. Hvað gekk illa?

Nokkur ansi ódýr mörk voru skoruð í leiknum sem hefði auðveldlega verið hægt að koma í veg fyrir með aðeins sterkari varnarleik. Nú er það liðanna að bæta það fyrir næsta leik. Hverjir stóðu upp úr?

Elvar Örn Jónsson var atkvæðamestur í liði Selfyssinga með níu mörk úr þrettán tilraunum. Haukur Þrastarson kom þar á eftir með sjö mörk. Hergeir Grímsson var flottur í vörninni með sjö löglegar stöðvanir. Björgvin Hólmgeirsson var flottur í liði ÍR og þá aðallega í fyrri hálfleik. Hann skoraði sjö mörk í leiknum. Sturla Ásgeirsson var með fimm mörk úr fimm tilraunum. Pétur Árni var með sjö löglegar stöðvanir. Hvað gerist næst?

Það er skammt stórra högga á milli í úrslitakeppninni en liðin mætast á nýjan leik á mánudagskvöldið í Austurbergi. Þar geta Selfyssingar tryggt sér sæti í undanúrslitunum, ef ekki þá er oddaleikur í Hleðsluhöllinni á miðvikudag. Leikurinn hefst klukkan 19:30 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

vísir/vilhelm
Patrekur: Skrítið að fólki finnist ÍR ekki góðir miðað við mannskapinn

„Þetta var allt eins og það á að vera, eins og úrslitakeppnin á að vera. Við byrjuðum okkar aggresívu vörn, það gekk ekki nægilega vel og við áttum í erfiðleikum með Bjögga. Við fórum ekki nægilega vel út í hann. Síðan breytum við í 5+1 vörn og leiðum með tveimur mörkum í hálfleik. Ég var ánægður með þá breytingu,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss.Hann var ánægður með Sölva í markinu. Sölvi varði níu skot og var með 27% markvörslu.„Sölvi var mjög góður allan leikinn, ég var ánægður með hann. ÍR-ingarnir eru fanta góðir og reynslu mikið lið. Ég er mjög ánægður að hafa klárað þetta.“Patti segist ekki skilja afhverju umræðan um ÍR sé eins og þeir séu með lélegt lið.„Mér finnst mjög skrítið að fólki finnist ÍR ekki góðir miðað við mannskapinn sem að þeir hafa. Nielsen í markinu, frábær. Sturla búinn að vera í landsliðinu og það vita allir hvað Bjöggi Hólmgeirs getur. Svenni í unglingalandsliðinu og línumennirnir frábærir. Maður getur nefnt allar stöður.”„Það er eðlilegt að þeir hafi trú á sjálfum sér. Ég ætla að greina leikinn núna og sjá hvort að við getum gert eitthvað betur. Við skulum bara sjá hvað gerist á mánudag, við forum þangað til þess að vinna.“ÍR-ingar fengu dauðafæri til þess að jafna metin undir lok leiksins en boltinn fór framhjá. Patti var sáttur við það að sleppa við framlenginguna.„Já ég held að allir þjálfarar vilji frekar vinna með einu en að fara í framlengingu. Nú keyri ég yfir heiðina og síðan ætla ég að klippa þennan leik og sjá hvort að það séu atriði sem að við getum gert betur. Við hittumst síðan í hádeginu á morgun og tökum æfingu,“ sagði Patti að lokum. 

vísir/vilhelm
Bjarni: Ótrúleg einstaklingsgæði frá Hauki og Elvari skapa mörkin þeirra

„Ég bara get ekki beðið eftir næsta leik,“ sagði Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR.„Þetta var bara geggjaður leikur og þvílíkt flottur handbolti sem að liðin buðu uppá og spiluður. Leikurinn var hraður, geggjaðar sóknir og mikil gæði í leiknum öllum leiknum.“„Við byrjuðum ekki vel varnarlega en ég var síðan ánægður með það að við skildum ná henni upp. Það er oft þannig að ef að maður byrjar illa varnarlega þá hangir það svoleiðis út leikinn.“„Í síðari hálfleik náum við upp geggjaðri vörn og Stephen var frábær. Það eru bara ótrúleg einstaklingsgæði frá Hauki og Elvari sem eru að skapa þessi mörk hjá þeim í síðari hálfleik.“Hvað þarf ÍR að gera til þess að vinna Selfoss á mánudagskvöldið?„Við þurfum bara að gera það nákvæmlega sama og við gerðum í dag nema sleppa einum tæknifeil, þá hefðum við unnið.“

vísir/vilhelm
Elvar: Viljum klára þetta í tveimur leikjum

„Þetta var bara frábær leikur á milli tveggja sterkra liða. ÍR var kannski í sjöunda sæti deildarinnar en þeir geta spilað mjög góðan handbolta,“ sagði Elvar Örn Jónsson leikmaður Selfoss eftir sigurinn á ÍR.Elvar var að vanda atkvæðamestur í liði Selfyssinga með níu mörk.„Við vitum hversu góðan handbolta ÍR getur spilað. Þeir eru þrælgóðir. Vörnin frábær, Stephen fyrir aftan og sóknarleikurinn líka góður.“„Það kom smá hikst á sóknarleikinn okkar í síðari hálfleik og þá ná þeir að keyra svolítið á okkur sem að við þurfum að skoða fyrir næsta leik. Stephen var líka að verja dauðafæri á þessu tímabili, þá ná þeir eðlilega að saxa á okkur.“Elvar segir að Selfyssingar þurfi að bæta varnarleikinn fyrir leikinn á mánudaginn í Austurberginu.„Varnarleikinn þurfum við að bæta. Svenni og Bjöggi voru að fara alltof auðveldlega í gegnum okkur. Hægri vængurinn þeirra var líka öflugur og við þurfum að stoppa þá betur í 1 á 1. Þegar þetta kemur þá fáum við fleiri varða bolta og fleiri hraðaupphlaup, við vorum bara með eitt í dag.“Elvar vill sleppa því að mæta ÍR í oddaleik í Hleðsluhöllinni á miðvikudagskvöld.„Auðvitað viljum við klára þetta bara í tveimur leikjum, þá fáum við meiri hvíld fyrir næstu umferð, við stefnum á það.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.