Viðskipti erlent

Carlos Ghosn mættur á Twitter og „boðar sannleikann“ í málinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Carlos Ghosn.
Carlos Ghosn. Getty/Junko Kimura-Matsumoto

Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri bílaframleiðandans Nissan, hefur skráð sig til leiks á samfélagsmiðlinum Twitter. Hann hefur boðað til blaðamannafundar og segist forstjórinn fyrrverandi vera að undirbúa sig undir það að segja sannleikann um hvað sé „að gerast“.



Ghosn var handtekinn á síðasta ári og sakaðir um að hafa erfisbundið vantalið fram tekjur sínar til eftirlitsaðila og að hann hafi misnotað eignir fyrirtækisins til eigin hagsmuna. Eru meint brot hans afar umfangsmikil að því er greint hefur verið frá í japönskum fjölmiðlum.



Sat hann í fangelsi í um þrjá mánuði en var látinn laus gegn tryggingu í síðasta mánuði. Þurfti hann að reiða fram um einn milljarð jena, rétt rúmlega milljarð króna.



Reikningur Ghosn er með hinu svokallaða „bláa merki“ sem þýðir að Twitter hefur sannreynt að Ghosn sjálfur, eða aðili á vegum hans, standi að baki reikningnum. Þá hefur talsmaður hans staðfest í samtali við New York Times að um forstjórann fyrrverandi sé að ræða.



„Ég er að undirbúa mig undir það að segja sannleikann um hvað er að gerast. Blaðamannafundur á fimmtudaginn, 11. apríl,“ skrifar Ghosn á Twitter.

Það kom talsvert á óvart þegar tilkynnt var á síðasta ári að Ghosn hafði verið handtekinn. Ghosn hafði á árunum fyrir handtökuna verið hampað sem bjargvætti Nissan en undir stjórn hans sneri fyrirtækinu við blaðinu eftir mikið rekstrartap. Var þetta gert í samvinnu við Renault en fyrirtækin, ásamt Mitsubishi, áttu í nánu samstarfi, allt undir stjórn Ghosn.



Ghosn heldur því fram að hann sé saklaus af ákærum í málinu og að það sé runnið undan rifjum annarra stjórnarmanna og stjórnenda Nissan, sem hafi óttast að fyrirtækið væri orðið of háð Renault.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×